Pistlar | 26. ágúst 2019 - kl. 15:30
Hugmyndir óskast
Aðkoma íbúa í málefnum landshlutans mikilvæg – Stórfundur í Menningarhúsinu Miðgarði, þriðjudaginn 3. september kl. 13-17.

Undanfarið hefur staðið yfir vinna við gerð nýrrar Sóknaráætlunar Norðurlands vestra. Sóknaráætlun hvað? Hvað er það? Er það nema von þú spyrjir…Þegar talað er um sóknaráætlun þá er í raun og veru verið að tala um framtíðarsýn. Í sóknaráætluninni erum við því að setja niður á blað í hvaða átt við viljum sjá landshlutann okkar þróast á komandi árum.

Þú ert sérfræðingur

Í slíkri vinnu er mikilvægt að fá innlegg frá sérfræðingum. Þegar unnið er með heilan landshluta þá liggur í augum uppi að sérfræðingarnir í málefnum landshlutans eru íbúarnir sjálfir. Þess vegna skiptir miklu máli að íbúar taki virkan þátt í því þegar sóknaráætlunin er mótuð. Íbúarnir vita best hver staða landshlutans er, hvaða möguleikar felast hér og hvað þarf að gera til að þeir raungerist.

Við viljum þitt innlegg

Þess vegna er í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við mótun Sóknaráætlunar Norðurlands vestra fyrir árin 2020-2024 lögð mikil áhersla á samráð við íbúa. Samhliða þeirri vinnu hefur staðið yfir vinna við sviðsmyndagreiningu atvinnulífsins til ársins 2040. Þar verða dregnar upp nokkrar mögulegar sviðsmyndir sem fá okkur til að hugsa hvað við þurfum að gera í dag til að vinna að ákjósanlegustu sviðsmyndinni í framtíðinni. Aftur erum við að tala um framtíðarsýn en í þessu tilviki til lengri tíma og með áherslu á atvinnulífið.

Komdu í Miðgarð

Ýmislegt hefur þegar verið unnið í tengslum við gerð nýrrar Sóknaráætlunar Norðurlands vestra og sviðsmyndagreiningar. Íbúakönnun var lögð fyrir í byrjun júní, verkefnisstjórn sem skipuð er stjórn og starfsmönnum SSNV hefur fundað, fundað hefur verið með fulltrúum atvinnulífsins á svæðinu. Nú í ágúst voru haldnir íbúafundir í sýslunum þremur í landshlutanum. Þriðjudaginn 3. september verður svo haldinn stórfundur í Menningarhúsinu Miðgarði þar sem íbúum landshlutans alls gefst kostur á því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Við viljum sjá þig þar!

Skiptir þetta máli?

Já, þetta skiptir máli. Áherslur sem mótaðar verða í sóknaráætlun munu t.d. hafa áhrif á áherslur við úthlutanir úr Uppbyggingarsjóði. Áhersluverkefni verða mótuð í takt við sóknaráætlunina og fjármagn sem ríkið veitir í stuðning til landshlutans ræðst af sóknaráætluninni. Það skiptir því miklu máli að fá fram sem flestar hugmyndir og sem flest sjónarmið frá sem flestum hópum innan svæðisins. Við viljum sjá fulltrúa úr sem flestum atvinnugreinum, fulltrúa menningar, menntunar, unga fólksis, eldri borgaranna, aðfluttra og innfæddra. Við viljum fá þá sem brenna fyrir umhverfismálum til að leggja orð í belg, þá sem eru bjartsýnir á framtíð landshlutans en líka þá sem eru svartsýnir. Með því að fá fram sem flest sjónarmið verður hægt að vinna ítarlega og marktæka áætlun sem mun koma okkur til góða í vinnu við eflingu landshlutans næstu árin.

Fundurinn verður í Menningarhúsinu Miðgarði, þriðjudaginn 3. september kl 13-17. Skráning á stórfundinn fer fram á heimasíðu SSNV – www.ssnv.is

Komdu á fundinn og hafðu áhrif á þróun Norðurlands vestra.

Hlökkum til að sjá þig,

Starfsfólk Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga