Fréttir | 10. september 2019 - kl. 09:30
Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra ekki endurnýjaður

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur ákveðið að draga sig út úr samstarfi fimm sveitarfélaga um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra en samningu þess efnis rennur út um áramótin. Í síðasta mánuði ákvað Húnaþing vestra að endurnýja ekki samninginn. Byggðarráð harmar að 20 ára samstarfi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í málefnum fatlaðs fólks sé á enda runnið með brotthvarfi Húnaþings vestra.

Sveitarfélögin fimm sem standa að samningnum eru Akrahreppur, Blönduósbær, Húnavatnshreppur Sveitarfélagið Skagafjörður og Húnaþing vestra. 

Byggðarráð telur, í ljósi nýrrar stöðu, farsælast að Sveitarfélagið Skagafjörður sinni málefnum fatlaðs fólks eingöngu innan sinna sveitarfélagsmarka þegar gildandi samningur rennur út. Þó er byggðarráð reiðubúið til að gera viðauka við nýgerðan samning við Akrahrepp um að veita þjónustu í málaflokknum til íbúa hreppsins ef vilji þaðan stendur til þess, að því er segir á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga