Ónýtir vegir eru óþolandi
Ónýtir vegir eru óþolandi
Fréttir | 10. september 2019 - kl. 11:49
Aðgerðir íbúa fyrir bættum Vatnsnesvegi kynntar byggðarráði Húnaþings vestra

Á byggðarráðsfundi Húnaþings vestra í gær voru kynntar fyrirhugaðar aðgerðir íbúa á Vatnsnesi og í Vesturhópi fyrir bættum Vatnsnesvegi. Setja á upp skilti á fjölförnustu staðina þar sem heimamenn óska eftir aðstoð ferðamanna við að ýta á stjórnvöld að laga veginn. Ferðamenn eru hvattir til að taka myndir af þekktum ferðamannaperlum og merkja á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #vegur711 og skrifa texta við myndina sem segir frá baráttu íbúa og ástandi vegarins. 

Það var Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir sem mætti á fund byggðarráðs í gær og kynnti aðgerðirnar. Byggðarráð þakkar íbúum fyrir frumkvæðið og að vekja athygli á slæmu ástandi Vatnsnesvegar.  Ráðið tekur undir áhyggjur íbúa við veg 711 og ítrekar mikilvægi þess að vegur um Vatnsnes komist inn á samgönguáætlun við endurskoðun hennar nú í haust. Einnig vill byggðarráð árétta að vegur 711 var settur í forgang í samgöngu- og innviðaáætlun Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem samþykkt var síðastliðið vor.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga