Jón Leifs (1934). Ljósm: Wikipedia. Willem van de Poll - Nationaal Archief, CC BY-SA 3.0.
Jón Leifs (1934). Ljósm: Wikipedia. Willem van de Poll - Nationaal Archief, CC BY-SA 3.0.
Pistlar | 27. september 2019 - kl. 09:34
Sögukorn af Jóni Leifs tónskáldi og fleiri Jónum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Jón fæddist í Sólheimum við Svínavatn þar sem áar hans höfðu lengi búið. Hann fór til tónlistarnáms í Leipzig 17 ára að aldri og tók síðar upp ættarnafnið Leifs eftir nafni föður síns, Þorleifs í Sólheimum/Reykjavík. Jón var aðeins 23 ára þegar hann samdi sitt fyrsta þjóðlega tónverk.

1. Jón Leifs 1899-1968 samdi sinfóníur, píanóverk og sönglög upp úr íslenskum tónlistararfi, Íslenskum þjóðlögum, grundvallarriti sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Tónlist hans var mótuð af einkennum þjóðlaganna, s. s. tíðum taktskiptum rímnalaga og samstígum fimmundum tvísöngsins. Meðal verka hans er Sögusinfónían þar sem hann lýsir á ljóðrænan hátt fimm sögupersónum úr Íslendingasögum. „Jón leit á það sem köllun sína að skapa séríslenskan tónlistarstíl sem gæti orðið öðrum tónskáldum innblástur." Árni Heimir Ingólfsson/Saga tónlistarinnar Rv. 2016.

Vinsælasta verk Jóns er útsetning hans á Hani, krummi, sem þekkt er í flutningi karlakóra en er líka vinsælt alþýðulag.

2. Jón Kaldal f. 1896 var bróðursonur Þorleifs í Sólheimum alþm. og póstmeistara í Reykjavík, hann og systkini hans misstu foreldra sína og fluttu ung suður til Reykjavíkur þar sem Jón nam ljósmyndun en flutti síðar til Kaupmannahafnar og hélt þar áfram ljósmyndanámi. Hann hóf að æfa langhlaup og átti eftir að setja mörg met. Hann stofnaði ljósmyndastúdíó að Laugavegi 11 eftir heimkomuna og varð kunnur og virtur ljósmyndari.

3. Jón Pálmason alþm. á Akri var líka bróðursonur Þorleifs í Sólheimum. Jón hóf búskap á Ytri-Löngumýri 1913, Mörk á Laxárdal 1915 og síðan aftur á Löngumýri 1917 og bjó til 1923 er fjölskyldan flutti út að Akri og hefur átt þar ættarsetur síðan.

4. Jón Jónsson alþm. í Stóradal var systursonur Þorleifs í Sólheimum og tveimur árum eldri en Jón frændi hans á Akri. Hann tók þátt stofnun Bændaflokksins með Tryggva Þórhallssyni, Hannes Jónssyni o. fl.

5. Þorleifur Jónsson, alþm., bóndi og póstmeistari, faðir Jóns Leifs og föður- og móðurbróðir ofangreindra Jóna, var sonur Jóns Pálmasonar og Ingibjargar Salóme Þorleifsdóttur frá Stóradal en þau bjuggu fyrst á Sólheimum í 20 ár en síðan í Stóradal.

Börn þeirra voru: Ósk (1849), Pálmi (1850), Guðmundur (1852), Magnús (1854), Þorleifur (1855), Guðrún (1856), Jón (1857), Ósk Ingiríður (1859), Ingibjörg (1860), Ósk (1863).

Skrautleg setning úr ræðu Jóns sýsluskrifara Sveinbjörnssonar fyrir minni nafna síns Pálmasonar á þjóðhátíð á Þingeyrum 1874 geymdist í minni Ingunnar á Kornsá og fer hér á eftir:

„Hér var allt í auðn og rústum, þar til þessi geisli sannleikans sólar braust fram yfir óruddar hraunklappir heimskunnar, á gullvagni gáfnanna og silfurvagni sólarinnar. Ó, heill sé þér, Jón Pálmason, þú reginviður ríkdómsins!"

Fleiri heimildir:
Jón Leifs: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Leifs
Jón Leifs/Líf í tónum: https://www.forlagid.is/vara/jon-leifs-lif-i-tonum/
Úr dagbók BBjarnasonar 2010: https://www.bjorn.is/dagbok/nr/5280
Jón Kaldal: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Kaldal
Mbl. JKaldal: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/284177/
Alþingisvefur: https://www.althingi.is/altext/cv/is/
Umsögnina um Jón Pálmason eldri, í Stóradal/Sólheimum rifjar Ingunn á Kornsá upp aftarlega í minningum um bændahjón í Vatnsdal um 1883: http://stikill.123.is/blog/2015/07/14/733214/
Bjarni Jónasson: Þorleifur í Stóradal/Hlynir og hreggviðir.

Ingi Heiðmar Jónsson

H÷f. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New