Fréttir | 10. október 2019 - kl. 09:29
Breytt veiðifyrirkomulag í Blöndu og Svartá

Miklar breytingar verða á veiðifyrirkomulagi í Blöndu á næsta ári. Eingöngu verður heimilt að veiða á flugu og á neðsta svæði árinnar, svæði I, verður tveggja laxa kvóti á dag. Þá munu veiðimenn þurfa að sleppa öllum stórlaxi, eða laxi sem er 69 sentímetrar eða stærri. Stöngum verður fækkað og veiðihúsin tekin í gegn. Nýverið gerði félagið Starir fimm ára samning við Veiðifélag Blöndu og Svartá um leigu á ánum. Fjallað er um breytingar á veiðifyrirkomulagi Blöndu og Svartá í Viðskiptablaðinu í dag.

Fram að þessu hefur Blöndu verið skipt í fjögur svæði og samtals veitt á 14 stangir. Veitt hefur verið á fjórar stangir á svæði I, fjórar á svæði II, þrjár á svæði III og þrjár á svæði IV. Auk fluguveiði, hefur undanfarin ár verið heimilt að veiða á maðk á tveimur veiðistöðum á svæði I í Blöndu. Á svæðum II og III hefur mátt veiða á spún og maðk en á svæði IV hefur einungis mátt veiða á flugu.

Frá og með næsta sumri verður eingöngu heimilt að veiða á flugu í Blöndu og á öllum svæðum verður kvóti, einn lax á stöng á hverri vakt og ekki heimilt að færa kvóta milli vakta. Þá munu veiðimenn þurfa að sleppa öllum stórlaxi, eða laxi sem er 69 sentímetrar eða stærri. Stöngum verður fækkað þannig að fyrstu þrjár vikurnar verður veitt á fjórar stangir á svæði eitt en þegar svæði II og III opna þá verður einungis veitt á eina stöng á hvoru svæði til að byrja með og síðan verður veitt á tvær á hvoru svæði. Stóran hluta af sumrinu verða svæði eitt, tvö og þrjú veidd saman. Á svæði IV verður veitt á þrjár stangir og verður svæðið selt sér. Þetta þýðir að mest verður veitt á 11 stangir í Blöndu í staðinn fyrir 14.

Í Svartá hefur verið veitt á fjórar stangir og einungis á flugu. Næsta sumar verður fækkað um eina stöng og tveggja laxa kvóti minnkaður niður í einn lax á stöng á dag. Í einhverjum tilfellum býðst veiðimönnum að taka Blöndu I, II og III og Svartá. Þá verður veitt á tíu stangir og Svartá verður inni í skiptingunni.

Sjá má ýtarlega umfjöllun um málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga