Menn áttu sínar gleðistundir í sumar þrátt fyrir dræma veiði víðast hvar.
Menn áttu sínar gleðistundir í sumar þrátt fyrir dræma veiði víðast hvar.
Fréttir | 10. október 2019 - kl. 15:11
Samdráttur í laxveiði í sumar

Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hafrannsóknarstofnun veiddust um 28.800 laxar á stöng í sumar. Veiðin er sú sjöunda minnsta sem skráð hefur verið frá árinu 1974 og sú minnsta frá árinu 2000. Mest varð minnkun í veiði á vestanverðu landinu en aukning kom fram í ám á Norðausturlandi. Veiðin 2019 var um 16.500 löxum minni en hún var 2018. Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt).

Laxveiði minnkaði í öllum landshlutum nema á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Sumarið einkenndist öðru fremur af miklum og fordæmalausum þurrkum allt sumarið sem gerði aðstæður til veiða afar erfiðar, einkum í dragám á vestanverðu landinu sem eru mjög háðar úrkomu yfir sumarið. 

Fjöldi veiddra laxa á Norðurlandi vestra var á bilinu 4.400-4.600 í sumar. Í fyrra veiddust um 6.500 laxar, árið 2017 veiddust um 9.500 laxar og árið 2016 um 11.500 laxar. Árið 2015 veiddust tæplega 18.000 laxar á Norðurlandi vestra. Laxveiði í landshlutanum hefur því farið minnkandi fjögur ár í röð. Laxveiðin í sumar á Norðurlandi vestra er líklega sú fjórða lægsta síðan árið 2000.

Í sumar veiddust um 4.400 laxar í húnvetnsku laxveiðiánum sem eru skráðar á lista Landsambands veiðifélaga yfir 75 aflahæstu laxveiðiár landsins en veiðin í fyrra var um 5.900.

Húnvetnsku laxveiðiárnar á listanum enduðu svona í sumar:

Miðfjarðará 1.606 laxar samanborið við 2.719 í fyrra.
Laxá á Ásum 807 laxar samanborið við 702 í fyrra.
Blanda 638 laxar samanborið við 870 í fyrra.
Vatnsdalsá 477 laxar samanborið við 551 í fyrra.
Víðidalsá 430 laxar samanborið við 558 í fyrra.
Hrútafjarðará 401 laxar samanborið við 360 í fyrra.
Svartá 57 laxar samanborið við 129 í fyrra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga