Sigurdís Sandra Tryggvadóttir. Ljósm: ismus.is
Sigurdís Sandra Tryggvadóttir. Ljósm: ismus.is
Fréttir | 14. október 2019 - kl. 13:45
Samdi kórverk við ljóðið Ísland

Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, frá Ártúnum í Blöndudal, stundar rytmískt píanónám við Syddansk Musikkonservatorium í Óðinsvéum í Danmörku. Í vikunni heldur Odense Kammerkor frá Danmörku tónleika á Íslandi þar sem kórverk eftir Sigurdísi Söndru verður flutt. Verkið er samið við ljóðið Ísland, eftir afabróður Sigurdísar, Jónas Tryggvason frá Finnstungu en Jónas var brautryðjandi í tónlistarstarfi í Austur-Húnavatnssýslu á sínum tíma og samdi sjálfur nokkur kórverk, það þekktasta, Ég skal vaka.

Sagt er frá þessu á vef Feykis. Þar kemur fram að kórverkið Ísland verður frumflutt í Akureyrarkirkju 16. október klukkan 19:30 og í Norræna húsinu í Reykjavík 18. október klukkan 20. Sigurdís Sandra segir í samtali við Feyki að eitt það skemmtilegasta við að starfa við tónlist séu þau fjölbreyttu tækifæri sem henni býðst. Fyrr á árinu samdi hún og útsetti verk fyrir Stórsveit Reykjavíkur, sem flutt var á tónleikum í Hörpunni í Reykjavík og nú er komið að Odense Kammerkor, 21 manna kór, stjórnaður af Uffe Most, að flytja kórverk eftir hana í ferð sinni til Íslands.

„Kórtónlist hefur alltaf átt stað í hjarta mínu. Ég hef hlustað ótal sinnum á plötuna Tónar í tómstundum, í flutningi Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps, þar sem afi minn, Jón Tryggvason, var meðal stjórnenda og bróðir hans, Jónas Tryggvason, samdi og útsetti nokkur verkanna, þar á meðal Ég skal vaka. Þegar ég stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík byrjaði ég að fá áhuga á að semja lög við texta og urðu nokkur ljóð úr ljóðabók Jónasar, Harpan mín í hylnum (1959), fyrir valinu. Jónas varð blindur um tvítugt og eiga mörg ljóða hans sameiginlegt að vera myndræn og andstæðukennd, togstreita á milli ljóssins og myrkursins,“ segir Sigurdís Sandra í samtali við Feyki.

Sjá nánari umfjöllun á Feyki.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga