Fréttir | 22. október 2019 - kl. 21:55
Blönduósbær gefur út húsnæðisáætlun

Blönduósbær hefur á undanförnum mánuðum unnið að gerð húsnæðisáætlunar. Markmiðið er að skapa yfirsýn yfir húsnæðismál sveitarfélagsins, meta þarfir ólíkra hópa og gera áætlun um uppbyggingu íbúða til næstu átta ára. Þessi fyrsta útgáfa áætlunarinnar má finna á vef Blönduósbæjar en hún er lifandi plagg og er gert ráð fyrir að fyrsta breyting verði gerð á henni 1. mars á næsta ári.

Í desember á síðasta ári tók gildi reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga en hún var sett í framhaldi af breytingu á lögum um húsnæðismál. Þar er kveðið á um að öll sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlanir til fjögurra ára í senn. Uppfæra á áætlanirnar árlega með tilliti til breytinga og þróunar milli ára.

382 íbúðir á Blönduósi – flest einbýlishús
Í húsnæðisáætluninni kemur fram að í árslok 2018 voru 382 íbúðir á Blönduósi. Einbýlishús eru flest eða 232 talsins og nemur hlutfall þeirra 61% af heildinni. Íbúðir í fjölbýli eru 60 eða 16%, í parhúsum 48 eða 13% og í ráðhúsum 42 eða 11%.

Í áætluninni kemur einnig fram að 1. mars síðastliðinn voru leiguíbúðir á Blönduósi 96 af 382 íbúðum eða um 25%. Alls voru 39 íbúðir í eigu sveitarfélagsins, 19 í eigu lögaðila og 31 í eigu einstaklinga. Frístundaíbúðir voru fimm og tvær íbúðir voru í Airbnb.

Þá kemur fram í áætluninni að 1. mars síðastliðinn var hafin bygging á tveimur einbýlishúsum og einu parhúsi. Búið er að taka grunn fyrir þriggja íbúða ráðhúsi og í vinnslu er fjögurra íbúða búsetukjarni fyrir fatlaða einstaklinga. Þá er búið að sækja um byggingarleyfi fyrir 20 íbúða fjölbýlishús.

Lestu húsnæðisáætlunina hér.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga