Fréttir | 22. október 2019 - kl. 20:05
Ekki sektað fyrir nagladekk

Lögreglan á Norðurlandi vestra ætlar ekki að sekta bifreiðaeigendur fyrir notkun nagladekkja sökum veðurfarsaðstæðna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni en hún kemur í kjölfar fjölda fyrirspurna, að því er segir á Facebook síðu hennar. Þar eru ökumenn minntir á að aka með gát og á að hámarkshraði á vegum miðist við bestu aðstæður.

Á vef Samgöngustofu kemur fram að nagladekk eru bönnuð frá 15. apríl til 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars. Þar er einnig vakin athygli á því að á tímabilinu 1. nóvember til 14. apríl skal mynstursdýpt hjólbarða vera a.m.k. 3 mm.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga