Nöldrið | 15. nóvember 2019 - kl. 09:45
Eldhúshillur valda yfirliði

Ég er mikill áhugamaður um kökur og allskonar sætabrauð ásamt góðum mat og nú er sá tími runninn upp þegar uppskriftir af girnilegum jólabakstri og allskonar gómsætum mat prýða síður blaða og tímarita. Þá er nú ekki leiðinlegt að ferðast um netheima og skoða allt sem þar er boðið uppá við undirbúning jólanna. Ég get þó ekki neitað því að maður staldrar við sumar fyrirsagnir að uppskriftunum. Ég veit ekki hvort fyrirsagnir á borð við "trylltar kjötbollur" eða "yfirliðsvaldandi lax" virka freistandi á nokkurn mann og ekki heldur "brauð sem fólk brjálast yfir" en mætti kannski prófa "kjúklingabringur sem fólk elskar að hata" eða "lífsbætandi lasagna" svo ekki sé minnst á "svívirðilega gott meðlæti". Lýsingarnar ná lengra og ég sá fyrirsögnina "eldhúshillur sem valda yfirliði". Ég veit ekki með aðra en ég vildi ekki eiga svoleiðis hillur í mínu eldhúsi. Finnst það ekki áhættunnar virði. Flestar þessar fyrirsagnir eru teknar af matarvef mbl.is og verður að segja að þar skrifa hugmyndaríkir orðasmiðir.

Það vakti athygli margra fréttin sem var á Húnahorninu 27. október um ömmuna í Þorlákshöfn sem prjónaði sokka og vettlinga og gaf síðan sýrlensku börnunum á Hvammstanga. Hér sitja konur við og prjóna utan um ljósastaura sem er skemmtilegt framtak og hefur vakið verðskuldaða athygli ferðamanna. En þegar prjónað hefur verið nóg fyrir staura bæjarins væri verðugt verkefni fyrir þessar prjónaglöðu konur að vinna að svipuðu verkefni og amman í Þorlákshöfn því nóg er af litlum köldum höndum og fótum í heiminum í dag.

Lokins lauk viðgerð Blöndubrúarinnar og nú ætti hún að vera öruggari yfirferðar og er það gott. Þó verð ég að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að hún var ekki breikkuð meira og göngustígurinn settur utan á brúna. Hún er bara einfaldlega of mjó, miðað við þá umferð sem um hana fer á hverjum degi. Það er ekkert grín að mæta stórum flutningabíl með tengivagn á brúnni a.m.k. ekki að vetrinum þegar snjóruðningar eru til beggja hliða. Það hafa komið fram hugmyndir um að hægt væri að setja göngubrú á klöppunum neðan við brúna og er það hugmynd sem vert væri að skoða. Það er þó ljóst að slík framkvæmd er ekki í sjónmáli fyrst ekkert var aðhafst samhliða þessari viðgerð. En hvernig var það, var ekki áformað  að stækka hringtorgið vestan brúarinnar um leið og brúin væri lagfærð. Það hefði sannarlega ekki veitt af því.

Umræður um sameiningu sveitarfélaga eru komin á fullt skrið um allt land. Í síðasta mánuði samþykktu íbúar í kosningu að sameina öll fjögur sveitarfélögin á Austurlandi. Þá er verið að kanna sameiningu sveitarfélaga á Suðurlandi og á Vestfjörðum. Austur-Húnvetningar hafa oft rætt sameiningu í gegnum árin en lítil alvara búið þar að baki. Ekki fyrr en árið 2017 þegar ákveðið var að hefja fyrir alvöru vinnu við að kanna kosti og galla þess að sameina Húnavatnshrepp, Blönduósbæ, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagabyggð í eitt sveitarfélag. Stofnuð var samstarfsnefnd um sameininguna og ráðgjafar ráðnir til að vinna verkefni. Og hvað svo? Nú er árið 2019 að renna sitt skeið og þögnin um þessi mál er æpandi. Hvar er málið statt? Er enn verið að bíða eftir því hvað Jöfnunarsjóður ætlar að leggja til málanna í sameiginlegt sveitarfélaga? Hann hefur nú þegar sagt sitt en nú geta sveitarfélög sem ætla að sameinast sé hversu mikið fjármagn þau fá úr Jöfnunarsjóði.

Samkvæmt upplýsingavef um sameiningarmálin, www.sameining.huni.is, sem er gott framtak, fundaði framkvæmdaráð síðast 12. júní síðastliðinn. Á fundinum voru menn sammála um að markvisst þurfi að vinna að undirbúningi málsins, m.a. að undirbúa að kosið verði um sameiningu á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils. Hugmynd kom upp að ráð verkefnastjóra sem ætti að leiða vinnuna og að æskilegt væri að viðkomandi myndi hefja störf á haustdögum 2019. Hefur þetta verið gert? Fyrir ekki svo allslöngu bárust fréttir af því að Þorleifur Ingvarsson, formaður nefndarinnar, hafi sagt af sér formennsku. Engar fréttir hafa borist af því hver tekinn sé við af Þorleifi. Ég hvet sameiningarnefndina um að eiga upplýsandi samskipti við íbúa sveitarfélaganna um þessi mál. Eitt það mikilvægasta í svona vinnu er gagnsæi og upplýsingagjöf. Þá er það lágmarkskrafa að íbúar sveitarfélaganna fái almennilega kynningu á öllum kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Svona mál verða ekki unnin í hjáverkum. Ef einhver alvara er að baki verður að ráð verkefnastjóra og gera ítarlega áætlun um aðgerðir þá mánuði sem eftir eru að kjörtímabilinu. Ef vilji sveitarstjórnarmanna er enginn, þá er alveg eins gott að slíta viðræðum strax.

Nú er rúmur mánuður til jóla og undirbúningur fyrir komu þeirra hafinn á mörgum heimilum. Ég hlakka til þegar jólaljósin fara að skína á hverju húsi og lýsa upp skammdegið. Njótum aðventunnar.

Með kveðju,

Nöldri. 

Höf. Nöldri

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga