Pistlar | 30. nóvember 2019 - kl. 07:59
Sögukorn um biskupsfrúr
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Biskupsfrúin fékk hlýjan sess í stofu Hildar Hákonardóttur rithöfundar, lista- og sögumanns. Hún rabbar við þær, eina eftir aðra, þær lútersku að sjálfsögðu, en flestar þeirra voru niðjar síðasta kaþólska biskupsins, Jóns Arasonar. Hann lifði sannarlega engu einlífi eða synir hans þó vígðir væru. Hildur rabbar líka við lesendurna í nýju bókinni sinni sem heitir einfaldlega: Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú:

„Hvernig er best að leita upplýsinga? Ég forðaðist í upphafi að lesa nokkuð um eiginmenn kvennanna en mikið hefur verið skrifað um þá allflesta. Í staðinn reyndi ég að kynnast konunum sjálfum – las úr ártölum, skoðaði ættarsambönd, systkinasambönd, fæðingarsveitir, fylgdi eftir ábendingum, líka fáránlegum og gúgglaði frjálslega, renndi augunum yfir nafnalista fræðirita (sem bar lítinn árangur) og leitaði uppi útfararræður. Síðan skoðaði ég hvernig hjónabandi þeirra hefði verið komið á, hvort Espólín hefði gefið þeim lyndiseinkunn eða varðveist hefði frá þeim eitthvert tilsvar og svo fór lífshlaup þeirra smám saman að taka á sig mynd. Þá fyrst lét ég eftir mér að lesa það sem þurfti um sögu eiginmanna þeirra og við hófum þetta sérkennilega samtal. Það merkilegasta sem kom í ljós var hvernig ættum var haldið við völd. Biskupsembætti ganga sjaldan í erfðir frá föður til sonar. Þó kemur það fyrir. En biskupsfrúrnar í Skálholti voru frá tímum Helgu Jónsdóttur sem kemur þangað laust fyrir aldamótin 1600 með tveimur undantekningum náfrænkur og færðist embættið ýmist til systurdóttur eða jafnvel til ömmusysturbarns og hélst þetta kerfi í meira en 200 ár í þröngum farvegi meðal afkomenda Björns og Ara, þeirra tveggja sona Jóns Arasonar, sem létu þar líf sitt. “

Meðal frúnna sem Hildur Hákonardóttir skrifar um í bók sinni er Helga Jónsdóttir, fæddist á Holtastöðum, giftist á Holtastöðum 1591 Oddi biskupi Einarssyni, aldursmunur 8 ár, var biskupsfrú í 39 ár, ekkja i 32 ár og dó 95 ára á Leirá. Afi  hennar var Björn á Melstað, Jónsson biskups Arasonar. Höfundur lýsir ferð nýgiftu biskupshjónanna og leggur orðin í munn Helgu frá Holtastöðum:

„Svo kveð ég heimafólkið og það mig og við höldum af stað. Oddur fremstur með fylgdarmanninum, svo kem ég og þjónustan. Við ríðum fram dalinn, tökum Blöndu á Hamrinum, höldum svo upp yfir Bakásana og stefnum í Biskupsáfanga á Kúluheiði. “

Helga er móðir þess fræga Árna Oddssonar sem reið á fám dægur úr Vopnafirði á Þingvöll til að sanna fjárdrátt Herlufs Daa sem Oddur biskup stóð harðvítugum deilum við. En Herluf hafði bannað kaupmönnum að flytja Árna til landsins.

„Þessi þeysireið var lengi í minnum höfð og þótti göldrum líkust. “

Hildur lýkur kaflanum um Helgu: Ég sit hugsi lengi eftir að hún fer. Þegar ég horfi yfir æviferil hennar og til alls þess sem hún þarf að læra og þroskast í gegnum, þá finnst mér að hún hafi komið stolt en mörkuð af ættarsári að norðan og þó að hún hafi ætlað að bjóða Sunnlendingum byrginn hafi hún líka lært að hlusta á þá.

Höfundurinn þakkar biskupsfrúnum eljusemina við þetta magnaða rannsóknarverk sitt og segir: „Við þessa vinnu hef ég verið knúin áfram af einhverju utanaðkomandi afli eins og konurnar eigi eitthvað ósagt því þær vekja mig gjarnan eldsnemma á morgnana og krefjast þess að ég haldi áfram að fletta bókum og skrifi niður og þær neita mér um að sinna öðrum áhugamálum. Ég held þær hafi leitt þessa vinnu og þetta sterka samband okkar varð til þess að ég notaðist við samtalsformið, því við vorum orðnar svo nánar.“ 

Já, þær verða nánar biskupsfrúrnar og Hildur sem á þingeyska móður og rangæskan föður og er alin upp við Bústaðaveginn, í úthverfi Reykjavíkur. Hún bjó lengi við strauma Ölfusár þar sem sér vítt til fjalla og jökla.

Og bókin er heillandi, Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga