Fréttir | 02. desember 2019 - kl. 15:10
Fjárhagsáætlun Húnaþings vestra 2020 samþykkt

Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkti í síðustu viku fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2020 og þriggja ára áætlun fyrir sveitarsjóð og undirfyrirtæki. Áætlunin gerir ráð fyrir um 611 þúsund króna tekjuafgangi. Áætlað er að fráveita og vatnsveita skili rekstrarafgangi en að önnur B-hluta fyrirtæki verði rekin með halla. Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var eins og undanfarin ár lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri sveitarfélagsins og skynsemi í framkvæmdu, að því er segir í fundargerð sveitarstjórnar frá 28. nóvember síðastliðnum.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að tekur samstæðunnar verði 1.595 milljónir króna á næsta ári en gjöld verði 1.562 milljónir króna og að fjármagnsliðir verði rúmar 32 milljónir. Áætlað er að afborgun langtímalána verði tæpar 76 milljónir og að handbært fé verði í árslok 2020 um 69 milljónir króna, sem er lækkun um 40 milljónir frá ársbyrjun. Helstu ástæður þess eru hitaveituframkvæmdir, framkvæmdir við gatnagerð og viðbygging grunnskólans. Gert er ráð fyrir hækkun skulda og skuldbindinga um 233 milljónir frá afkomuspá ársins 2019.

Samkvæmt áætluninni er skuldahlutfallið 69,5% fyrir árið 2020 en það má mest vera 150%. Á næsta ári er gert ráð fyrir lántöku að fjárhæð um 80 milljónum vegna hitaveituframkvæmda og 210 milljónum hjá eignasjóði vegna viðbyggingar við grunnskóla. Á sama tíma verða eldri lán greidd niður um 76 milljónir.

Sveitarstjórn fagnar því að rekstur sveitarfélagsins leyfi áframhaldandi framkvæmdir til hagsbóta fyrir íbúa í Húnaþingi vestra. Þessar framkvæmdir séu aðeins mögulegar vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og jafnvægis í rekstri undanfarin ár. „Afar mikilvægt er að halda áfram að sýna ráðdeild í rekstri, halda fyrirhugðum framkvæmdum áfram af skynsemi og lágmarka lántökur eins og kostur er,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga