Frá Þingvöllum.
Frá Þingvöllum.
Pistlar | 08. desember 2019 - kl. 10:24
Stökuspjall: Mér er um og ó um Ljót
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hentug mundi Hrafnagjá
að hafa fyrir landsins kassa.
Arnljótur minn þyrfti þá
þar að vera og hana passa. PÓ

Þeir voru samhaldssamir sumir gömlu þingmennirnir og Arnljótur Ólafsson af Snæbirningaætt úr Húnaþingi var þar ekki eftirbátur. Hann varð síðast prestur á Sauðanesi, frá haustinu 1889 og flutti þangað í nýlegt steinhúsið sem þar stendur enn og varðveitt er í safn auk þess sem þar er höfð gestamóttaka og kirkjukaffi. Þá var Arnljótur 66 ára og átti eftir að vera prestur í 15 ár, eða fram í andlátið 1904.

Páll Ólafsson orti aðra vísu um Arnljót:

Yfirvöldin yrðu þá
ekki rík úr landsins kassa.
Þar fær enginn gull úr gjá
sem gamli Ljótur á að passa. PÓ

Skáldið Páll var Austfirðingur, varð afhuga þingmennsku, átti langt að sækja og hugðist mæla með Arnljóti í sinn stað. Sr. Björn í Laufási í Höfðahverfi sendi Páli bréf, lagðist gegn kosningu Arnljóti og fylgdi vísa, sem álitið er að Björn hafi sjálfur ort:

Mér er um og ó um Ljót
ég ætla hann vera dreng og þrjót
í honum bæði gull og grjót
er getur unnið mein og bót. Sr. Björn Halldórsson Laufási

Annar Björn, Sigfússon og alþingismaður  á Kornsá bjó áður í Grímstungu en þar áttu Björn Eysteinsson og Lárus sonur hans eftir garðinn frægan. En Björn á Kornsá var dóttursonur Björns Blöndal í Hvammi:

Hrjóti Tungu-Birni blót,
brjálar varla friði
eða sakar aðra hót
frá almennu sjónarmiði.

Þingvísan var ort um Björn en honum varð á að blóta í ræðustóli Alþingis, Lokahendingin sneiðir að öðrum þingmanni, Sighvati Árnasyni í Eyvindarholti sem viðhafði gjarnan orðtakið frá almennu sjónarmiði þegar hann kom í ræðustól.

Löngu síðar eða í þingveislu á Hótel Borg 19. des. 1937 snerist kveðskapur þingmanna upp í meting milli landsfjórðunga og Skúli Guðmundsson þingmaður Vestur-Húnvetninga skoraði Vestfirðinga á hólm en Bjarni Ásgeirsson og Þorsteinn Þorsteinsson sýslumaður svöruðu í sameiningu:

Betra væri þetta þing
og þrasað heldur minna,
væri engan Vestfirðing
í vorum hópi að finna. SG

Þegar komið var hér verst
véum helgrar glóðar
Vestfirðingar vörðu best
vígi lands og þjóðar. BÁ&ÞÞ

Tilvísanir:
Arnljótur Ólafsson í alþingismannatali: https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=24
Sr. Arnljótur frá Auðólfsstöðum: http://stikill.123.is/blog/2009/02/16/350514/
Þingvísur 1872-1942, útg. Þórhallur Bjarnarson: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/heimildir.php?ID=7822
Gamanvísur á Húnaflóa – Kvæða- og vísnavef: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/visur.php?FL=18

Ingi Heiðmar Jónsson

H÷f. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga