Óveður
Óveður
Fréttir | 11. desember 2019 - kl. 07:15
Rafmagnslaust í Vestur-Húnavatnssýslu

Óveðrið sem gengur hefur yfir landið hefur valdið rafmagnstruflunum víða um land. Rafmagnlaust er á Hvammstanga og í Vestur-Húnavatnssýslunni allri og hefur verið síðan klukkan 14 í gær að því er fram kemur á vef Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að Hrútatungulína 1 í Hrútafirði sé úr rekstri, líklega vegna snjós og seltu í tengivirkinu.

Vegna þessa er Norðvesturland vestan Blönduóss án rafmagns frá meginflutningskerfinu og er Vestur-Húnavatnssýsla nánast alveg án rafmagns; ekkert er rafmagn á Hvammstanga, á Laugarbakka, í Miðfirði, Hrútafirði, Langadal, Svínadal og víðar. Þá voru Vestfirðir norðaverðir lýstir með varaafli um hríð. Mannskapur er á leið í Hrútatungu frá Hvammstanga til að afísa og salthreinsa spennuvirkið.

Mannskapur frá slökkviliði og björgunarsveit á Hvammstanga er nú kominn að tengivirki Landsnets í Hrútatungu. Pétur Ragnar Arnarsson, slökkviliðsstjóri, sagði í samtali við fréttastofu RÚV að ferðin hefði gengið hægt en örugglega og menn mjakast þetta áfram á 15 til 20 kílómetra hraða. Mikil ofankoma er enn nyrðra og afar blint.

Slökkviliðsmennirnir óku gömlum, fjórhjóladrifnum mjólkurbíl, sem nú gegnir hlutverki dælubíls hjá slökkviliðinu, og í fylgd með þeim er vel búinn jeppi björgunarsveitarmanna. Aðalmarkmið slökkviliðsmanna er að spúla seltuna af spennivirkinu svo hægt verði að koma rafmagni á Vestur-Húnavatnssýslu og tryggja rafmagn frá landsnetinu til Vestfjarða. Björgunarsveitarmenn eru svo með varaaflstöð í farteskinu fyrir símstöð við Staðarskála, þar sem allt stefnir í að bæði tetra- og farsímasamband detti út á þessum slóðum innan skamms að öðrum kosti.

Sjá nánar á vef RÚV.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga