Langidalur. Mynd frá því í vor.
Langidalur. Mynd frá því í vor.
Fréttir | 11. desember 2019 - kl. 14:06
Snjóflóð féll í Langadal

Snjóflóð féll á veginn í Langadal norðan við brúna yfir Svartá. Flóðið er um fimmtíu metrar að breidd og tveggja metra djúpt. Ófært er í Langadal og allur snjómokstur í biðstöðu að sögn Vegagerðarinnar á Sauðárkróki. Sagt er frá þessu á vef Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að ekkert verði aðhafst eins og er en ekki er vitað til þess að nokkur hafi lent í flóðinu, að sögn Landsbjargar.

Haft er eftir Stefáni Vagn Stefánssyni, yfirlögregluþjóni á Norðurlandi vestra, að Vegagerðinni hafi verið gert viðvart um snjóflóðið. Hann segir að ekki sé vitað til þess að neitt mannvirki sé á svæðinu þar sem snjóflóðið féll. Reynt verði að moka í gegnum flóðið en vegir séu allir lokaðir. „Það hefur lægt heilmikið frá í gær en enn er brjálað veður. Við vonumst til þess að í kvöld verði veður skaplegra og þá sé hægt að aðhafast betur. RARIK, Landsnet og Vegagerðin eru að gera það sem hægt er að gera þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður,“ segir Stefán í samtali við Ríkisútvarpið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga