Langidalur
Langidalur
Pistlar | 31. desember 2019 - kl. 10:15
Stökuspjall: Lítt um náttstaði valið get!
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sigurður frá Haukagili í Hvítársíðu gaf út þriggja binda vísnasafn árin 1973-5. Þar er að finna vísu Ísleifs kaupmanns á Sauðárkróki, einkunn handa einum af þegnum Mammons:

Yfir bárur ágirndar
elligrár og slitinn
reri árum rógburðar
rann af hári svitinn.

Um svipað efni orti Þórarinn Sveinsson í Kílakoti:

Hann með sjónlaust hugarfar
helgar krónum stritið.
Klakahrjónur heimskunnar
hafa skónum slitið.

Jónas Halldórsson bóndi í Hrauntúni í Þingvallasveit lýsir þannig samtíð sinni, en gæti allt eins verið að yrkja um árið 2019:

Undir skelfur veröld víð
vitfirringa hljómi.
Oflætið á okkar tíð
endar í Stóradómi.

Guttormur J. Guttormsson orti er óveður var í aðsigi:

Ofar skjóli skýjafar
skini sólar tálmar.
Rær á stóli þungbrýnn þar
þrumu-Bólu-Hjálmar.

Sigríður Hjálmarsdóttir bjó í Holtastaðakoti en síðar á Blönduósi:

Margur villist lífs um lönd
þó leiðir þekki að fullu og réttu.
Gott er að eiga heila hönd
að hjálpa og styðja að marki settu. SH

Aðra vísu á þessi dóttir Bólu-Hjálmars í Húnaflói/vísnasafni:

Eins er hér og eyðisker
ekkert ber til gleði.
Kríuger og hrafnaher
helst er mér að geði. SH

Hjálmar frá Bólu orti, gamall maður á leið um Langadal og minntist horfinna vina og veitulla:

Langur finnst mér Langidalur
lítt um náttstaði valið get
móti mér andar andi svalur
ætlar bráðum að gera hret.
Á húsdyr bænda með hryggð er les
Hjálmar er burtu og Jóhannes.
Enga kunningja þar eg þekki
Þorlákur prestur sést nú ekki. HJ

Jóhannes bjó á Gunnsteinsstöðum og var mesti stólpi og áhugamaður um félagsmál Blönd- og Langdælinga, Hjálmar á Æsustöðum en sr. Þorlákur Stefánsson á Auðólfsstöðum þjónaði Blöndudalshóla- og Holtastaðasóknum. Hann var faðir Þorláks bónda í Vesturhópshólum en afi Bjargar C. Þorláksson fyrsta kvendoktors Íslendingar og Jóns Þorlákssonar verkfræðings og borgarstjóra Reykjavíkur.


Vísað til:
Sigríður Hjálmarsdóttir https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/hofundur.php?ID=16162
Langur finnst mér Langidalur – allt ljóðið sem geymst hefur: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/ljod.php?ID=5384
Hjálmar Jónsson: https://bragi.mmagnusson.net/hunafloi/hofundur.php?ID=15313
Björg C. Þorláksson: https://is.wikipedia.org/wiki/Bj%C3%B6rg_Caritas_%C3%9Eorl%C3%A1ksson


Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga