Pistlar | 08. janúar 2020 - kl. 11:18
Aðeins eitt líf
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég á aðeins eitt líf. Það er mér mjög dýrmætt. Ég reyni að lifa því og ég hef reynt að vanda mig við það enda nýt ég þess. Samt veikist ég, verð fyrir hvers kyns vonbrigðum og særist. Að lokum mun ég verða dæmdur úreltur af samtímanum og smám saman mun slokkna á líka mínum. Hann deyr og verður að moldu.

Ég er stöðugt minntur á það að ég á aðeins eitt líf. En þegar ég hugsa málið, þá er það eftir allt saman bara allt í lægi. Ég sætti mig við það. Því ég hef falið líf mitt Guði og í trausti til sonar hans, frelsarans Jesú, mun það vara að eilífu. Hans sem sagði: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Sá sem lifir og trúir á mig skal aldrei að eilífu deyja. Ég lifi og þér munuð lifa."

Lífið heldur áfram

Markmið eru sett, áföngum er náð, tímamót verða. Fjallið er klifið, toppnum er náð. Þá koma í ljós nýir toppar, ný markmið, nýir áfangar.

Þrátt fyrir öll tímamót og fjarlæg markmið sem oft virðast eins og lokatakmark þá heldur lífið alltaf einhvern veginn áfram. Þrátt fyrir allt mótlæti, torfærur og brekkur, baráttu og ósigra. Og jafnvel þótt ævinni ljúki, jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann sem er sannkölluð tímamót. Þá heldur lífið áfram, og ekkert fær það stöðvað. Hvorki við sjálf, mannlegur máttur eða utan að komandi öfl.

Lifi lífið

Góður Guð vaki okkur yfir á nýju ári. Umvefji okkur öll kærleika sínum og fylli okkur anda sínum, friði og von. Hann fylli okkur anda skilnings og samstöðu þannig að við hugum að hag heildarinnar. Og gefi okkur að lifa sítengd við lífið. Í þakklæti þannig að við tökum að sjá og hlusta á okkur sjálf, samferðafólk okkar og umhverfi með hjartanu.

Gefum okkur tíma til að rækta okkur sjálf. Setjast niður og biðja hvert fyrir öðru, sjálfum okkur og umhverfi, því þá verður allt eitthvað svo miklu mildara og betra.

Njótum lífsins og stundarinnar sem kemur ekki aftur. Verum ekki sífellt að bíða eftir einhverju sem kemur kannski seinna. Njótum þess að dvelja í núinu því að andartakið líður hratt og það kemur ekki aftur.

Munum að stress, óhófleg vinna, hraði og það að hafa alltaf brjálað að gera lengir ekki lífið og eykur ekki vellíðan. Því síður dýrir munir, munaður og óhófleg eyðsla og neysla.

Hleypum heldur hinum varanlega friði að í hjarta okkar og gerum þannig lífið sjálft að niðurstöðu í tilveru okkar.

Já, kærleikans Guð vaki yfir þér og veri með þér í leit að tilgangi lífsins. Hann veri með þér í allri þinni gleði og hamingju. En einnig á raunarstundum vonbrigða, sorgar og söknuðar.

Hann gefi okkur nýja sýn á lífið sem fyllt er raunverulegum markmiðum og varanlegri hamingju. Nýtt upphaf sem byggt er á gömlum, traustum og góðum merg. Bjargi sem ekki bifast, þrátt fyrir að allt virðist í heiminum hverfult og vera að farast.

Fullur bjartsýni og von óska ég ykkur og bið kærleika og friðar á árinu 2020.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga