Ljósm: stjornarradid.is
Ljósm: stjornarradid.is
Fréttir | 14. janúar 2020 - kl. 16:12
Efla á starfsemi stofnana á landsbyggðinni

Áætlun hefur verið gerð til að fjölga starfsmönnum stofnana á landsbyggðinni sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Sett hafa verið fram tölusett markmið um fjölgun árin 2021, 2023 og 2025. Stofnanirnar eru Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun. Í ætluninni, sem unnin var í samráði við forstöðumenn þessara stofnana, eru bæði sameiginlegar áherslur og tölusett markmið en sérstakur stýrihópur ráðuneytisins og forstöðumanna stofnana hefur verið falið að tryggja framkvæmd hennar og verður árangur hennar metinn árlega.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun ráðstafa 50 milljónum króna af verkefnafé ráðuneytisins til þessa verkefnis á árinu 2020. Í tilkynningu segist Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  vonast til þess að afrakstur áætlunarinnar verði til þess að efla þjónustu hins opinbera á landsbyggðinni og um leið styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Í áætluninni kemur fram að tveir starfsmenn hafi starfað á Hvammstanga á síðasta ári á vegum Hafrannsóknarstofnunar og einn starfsmaður á Skagaströnd. Einnig kemur fram að fimm starfsmenn hafi starfað í fyrra á Sauðárkróki á vegum Matvælastofnunar og einn starfsmaður á Hólum í Hjaltadal.

Þá kemur fram í áætluninni að gert er ráð fyrir að störf stofnananna á Norðurlandi muni fjölga úr 41 árið 2019 í 57 árið 2025. Ekki kemur fram í áætluninni hvernig þessi störf skiptast niður á sveitarfélög.

Áætlunina má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga