Skagastrandarhöfn
Skagastrandarhöfn
Fréttir | 16. janúar 2020 - kl. 15:43
Harmar 40% skerðingu á byggðakvóta

Sveitarfélagið Skagaströnd harmar mjög að gert sé ráð fyrir rúmlega 40% skerðingu á byggðakvóta til sveitarfélagsins á núgildandi fiskveiðiári. Nýverið sagði Húnahornið frá því að sveitarfélög í Húnavatnssýslum hefðu fengið samtals 352 tonn af almennum byggðakvóta fiskveiðiárið 2019/2020. Og að það væri 87 tonnum minna en fiskveiðiárið 2018/2019. Skagaströnd fékk mest eða 179 tonn sem er 121 tonni minna en síðustu ár. Skerðingin er vegna þess að heildarmagn til úthlutunar er að minnka og þær almennu reglur sem notaðar eru til úthlutunar verja brothættar byggðir og sveitarfélög með íbúa undir 400 fyrir skerðingu milli ára.

Í fundargerð sveitarstjórnar Skagastrandar frá því í gær kemur fram að ef úthlutunarreglurnar séu skoðaðar komi í ljós að byggðalög sem njóti úthlutunar á grunni áfalla í rækjuveiðum og vinnslu eru ekki skert á sama hátt, þ.e. á grunni íbúafjölda. Í því felist hrópandi misræmi.

Sveitarfélagið fagnar þess vegna að nú sé að störfum nefnd sem hafi það að markamiði að endurskoða regluverkið sem notað er í tengslum við aflaheimildir sem sjávarútvegsráðherra hefur til úthlutunar. „Miklar vonir eru bundnar við að í þeirri vinnu verði enn sterkar litið til hagsmuna minni sjávarplássa vítt og breitt um landi,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar Skagastrandar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga