Dagbókarsíða Tryggva í Tungu.
Dagbókarsíða Tryggva í Tungu.
Pistlar | 18. janúar 2020 - kl. 08:45
Sögukorn frá Tungu
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Úr dagbók TJ í Finnstungu/Tryggva í Tungu 1941

Að taka til tófta, stinga út, reisa tað, slóðadraga, gera við slóða og skrifa upp dánarbú eru verkefni sem koma við sögu í tæplega áttræðri dagbók Tryggva afa í Finnstungu.

Í bréfum og dagbókum opnast gluggi til daglegs lífs fyrri tíma, hestur og handafl höfðu ekki enn verið leyst af hólmi, en vélaöld var að ganga í garð. Hún birtist smátt og smátt – eins og okkur virðist lífið hafa gengið fyrir sig, slóðar voru dregnir um tún –  í fyrstu af hestum en dráttarvélar voru komnar til sögunnar þegar kynslóð mín – 1945 -´50 – var farin festa augu á daglegum verkum  og taka þátt í þeim.

Kúm og kindum var beitt á tún á haustin, síður á vorin þó það væri líka tíðkað, auk þess sem taði og mykju var ekið á völl. Þá var dýrmætt að eiga slóða til að draga um túnið en áður hafði verið handunnið á túnunum, taðinu rakað saman, mulið í taðkvörn og borið á með handafli.   

Þeir voru dagbókamenn, Tungufeðgar, Tryggvi f. 1892, sem bóndi varð í Tungu eftir Jónas föður sinn og eins Jónas elsti sonur Tunguhjónanna, f. 1916, en nokkrir dagar frá vorinu 1941 sem Tryggvi greindi frá í dagbók verða rifjaðir upp hér neðar.

Til skýringa:

Börn þeirra Tunguhjóna koma mest við sögu: 1. Jónas 25 ára, 2. Jón 24 ára, 3. Guðmundur nýorðinn 23 og 4. Anna Margrét 21 árs en stúlka frá næsta bæ, Aðalbjörg Þorgrímsdóttir 23 ára er í vinnumennsku þar á heimilinu og dagbókahöfundur nefnir stúlkurnar gjarnan A og A. Hann notar mjög skammstafanir, þegar hann skráir niður vorannirnar – sér og öðrum til minnis.

Umsjónarmaður þjóðvega, Steingrímur Davíðsson skólastjóri á Blönduósi og Hafsteinn oddviti á Gunnsteinsstöðum komu einn daginn til skoða veg og vegarstæði inn Blöndudalinn. Í dalnum var starfandi vegafélag þar sem sveitarmenn lögðu til svo og svo mörg dagsverk hvert sumar og hesta til dráttar.

G.B. er Gunnar Bjarnason, einsetumaður í Ytrakotinu sem hafði af því nytjar ásamt jarðeigendunum, Finnstungumönnum.

Áttræða frænkan á Blönduósi, Anna Jóhannsdóttir frá Mjóadal er dóttir Guðrúnar, systur Jónasar eldri í Finnstungu, og systir Sigurjóns í Blöndudalshólum, amma Sigurgeirs Hannessonar í Stekkjardal, Þormóðar Sigurgeirssonar verkstæðisformanns í Vélsmiðju Húnvetninga og bræðra hans.

Önnur Blönduósferð var gerð þegar Jón Tryggvason hjólaði til Blönduóss á héraðsfund ungmennafélaganna.

Fé og fjós nefnir TJ á fyrsta degi, vill minna á, að málaverkum þurfti einnig að sinna kvölds og morgna, að láta inn fé og gefa eða ganga til þess ef sauðburður var hafinn og fé lá við opið og eins að fara í fjós til að mjólka, gefa hey, fóðurbæti og moka flórinn. 

Fremst í dagbókinni er vörubirgðaskrá dagsett 1. maí og þar eru m. a. tilgreind 50 kg af hveitikorni og 25 af möluðu hveitikorni. Af kartöflum voru til 200 kg og af því 100 kg sem ætluð voru til útsæðis, en í dagbókarbrotinu kemur í ljós sala á kartöflum, alls 80 kg, að Vatnshlíð, þremur bæjum fremst í Svartárdal og til BJ.

Maí 1941 Tólf dagar úr dagbók TJ:

  1. Útstunga í Tungu: 3 við það (bræðurnir) – fé og fjós. Hreingerning Tungu 2 við það (Alla og Anna).
  2. Útstunga Kotinu og slóðadraga. Öll 6 við það. Nonni á vörð frá 3, við hin til 6. Hestar 2 dagsverk.
  3. Unnið við tað heima, reisa og taka saman, 4 við það (ég, Jonni, A og A) Mundi herfaði í Kotinu. Nonni til Blönduóss á hjóli.
  4. Steingr. D. og Hafst. komu að líta á veginn. Fór með þeim að Austurhlíð. 20 kg kart. E. Vatnshl.
  5. Slóðadrógum heima 3 (ég, A. og A. og 2 hestadagsv.) Nonni norður á Krók. Jonni tók til tóftar suður frá. Mundi vann á Brandstöðum.
  6. Jonni bar á heima, Alla við hreingerningu, Anna í rúminu. Mundi vann á Brandsstöðum. Nonni vann niður frá. Ég var við uppskrift á db. Sig. Guðm. Hvammi.
  7. Slóðadregið niður frá: 4 (Jonni, Nonni, A og A.) 2 hestadagsv. Við Mundi í túngirðingu heima. 30 kg. kart. Fossum, Stafni, Kúfust.
  8. Slóðadregið og borið á niður frá: 5 (Bræðurnir allir og stúlkur) Smyrill og Y-Brúnn teknir fyrir slóða með, ca. 3 hestadagsverk. Við hjónin forum til Blönduóss. Áttræðisafmæli Önnu Jóh. frænku.
  9. Unnið niðurfrá: 5 (Bræðurnir allir og stúlkur), 2 hestadagsv. Ég lagaði lítið eitt í garðinum heima. Fór um kvöldið að Hólum. Vegafélagsfundur þar.
  10. Nonni með G.B. í girðingunni niður frá. Við hin við samantekningu á eldivið heima. Mundi lagaði slóða. 30 kg. kart. Bj. Jónsson.
  11. Fórum að Bergsstöðum allir 4. Varð lítið úr æfingu, vantaði 5 og 3 illa fyrirkallaðir vegna uppboðs á Mælifelli í gær.
  12. Slóðadregið heima og mokað úr: 4 (Jonni, Mundi og stúlkur), Nonni og ég niðurfrá. Ég í girðingu með Gunnari. Nonni ók af, 1 hestdagsverk niðurfrá, 1 hestdagsverk heima.

Fleira til fróðleiks:
Til hvers karlakór, fyrirlestur IHJ í Hæðargarði í febr. 2016: http://stikill.123.is/blog/2016/02/25/744889/ 
Minningarhátíð um Jónas Tryggvason í nóv. 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13350

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga