Norðurland vestra
Norðurland vestra
Fréttir | 21. janúar 2020 - kl. 10:49
Sveitarfélög á Norðurlandi vestra á móti frumvarpi um Hálendisþjóðgarð

Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa sent sameiginlega umsögn við frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð inn í Samráðsgátt stjórnvalda. Sveitarfélögin eru landstór og liggja mörk þeirra á Langjökul, Hofsjökul og Kjöl og ná yfir víðáttumikil landsvæði innan miðhálendisins. Málefnið varðar sveitarfélögin og íbúa þess miklu og leggjast þau gegn framgangi frumvarpsins í núverandi mynd.

Í umsögninni leggja sveitarfélögin til að íslenska ríkið vinni að friðun svæða á miðhálendinu í samráði við einstök sveitarfélög og stefnu þeirra um landnotkun sem birtist í aðalskipulagi. Og að ekki verði önnur svæði lögð inn í þjóðgarð en þau sem sveitarfélög samþykki. Í umsögninni segir að tillögur um stofnun miðhálendisþjóðgarðs hafi verið unnar á eðlilegs samráðs og undirbúnings á lýðræðislegum vattvangi. „Í ljósi aðkomu sveitarfélaga að málefnum miðhálendisins, þekkingar þeirra og nálægðar sætir furðu út frá sjónarmiðum um gæði stjórnsýslu og stjórnunar að æskilegt þyki að fella 30-40% landsins undir miðstýrð stjórnvöld ríkisins,“ segir í umsögninni.

Þá telja sveitarfélögin óvissu ríkja um fjármögnun Hálendisþjóðgarðs og háttu á að þjóðgarðsstofnun leiði til stöðnunar á nauðsynlegri innviðauppbyggingu á þjóðgarðssvæði. Telja þau óásættanlegt að skipulagsvald, sem sé þýðingarmesta tæki sveitarfélaga til að hafa áhrif á þróun byggðar og landnotkunar út frá hagsmunum samfélagsins, yrði nánast fellt niður á þjóðgarðssvæði, samanber framvarpsákvæði um bindandi þýðingu verndar- og stjórnunaráætlana þjóðgarða.

Sjá má sameiginlegu umsögnina hér.

Stöðugt vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga
Með sameiginlegu umsögninni í Samráðsgáttinni fylgja umsagnir og bókanir hvers sveitarfélags fyrir sig. Í umsögn Húnavatnshrepps segir að sveitarstjórn telji það ekki ásættanlegt að stjórn og umráð yfir 40% Íslands verði í höndum fárra aðila. Stöðugt sé vegið að sjálfstæði landsbyggðarsveitarfélaga og þeim ekki treyst fyrir því landsvæði sem sé innan þeirra sveitarfélagsmarka.

„Í ljósi þeirrar reynslu sem komin er á rekstur þjóðgarða á Íslandi má glöggt sjá að mjög víða er pottur brotinn t.d. í viðhaldi vega, fráveitumálum og merkingum svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að mörg stór verkefni sem útheimta mikið fjármagn bíða framkvæmda í þjóðgörðum landsins,“ segir í umsögninni.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps fær ekki séð hvernig ríkinu ætlar að takast að halda utanum, sinna og fjármagna öll þau stóru verkefni sem munu bætast við, verði miðhálendisþjóðgarður að veruleika. Allvíða á hálendinu þar sem ekki séu þjóðgarðar sé þegar mjög vel haldið á málum.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leggst þannig alfarið gegn áformum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs sem kynnt hafa verið sveitarfélögum á umliðnum vikum.

Sjá má umsögn Húnavatnshrepps hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga