Fréttir | 24. janúar 2020 - kl. 11:00
Samantekt íbúafundar í Húnavatnshreppi

Húnavatnshreppur hélt íbúafund í Húnavallaskóla í lok nóvember á síðasta ári og sóttu um 40 íbúar hann. Jón Gíslason, oddviti sveitarfélagsins setti fundinn og fór yfir áherslur í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Því næst fór fram vinnustofa sem ráðgjafar KPMG stýrðu. Á vef Húnavatnshrepps má finna samantekt frá fundinum sem inniheldur niðurstöður vinnustofunnar sem settar eru fram sem vinnugögn til frekari úrvinnslu.

Íbúafundurinn bar yfirheitið „Vilt þú taka þátt í að skapa framtíð sveitarfélagsins?“. Á vinnustofunni var íbúum boðið að koma skoðunum sínum um stöðu málefna sveitarfélagsins á framfæri og einnig hugmyndum að framtíðar áherslum. Málaflokkarnir sem teknir voru fyrir vörðuðu umhverfismál, samstarfs- og sameiningarmál, fræðslumál, íþrótta- og æskulýðsmál, atvinnumál og fjallaskil og fjármál sveitarfélagsins.

Almennur vilji til sameiningar

Í samantektinni kemur fram að samkvæmt fundargestum sé almennur vilji er á meðal íbúa í Húnavatnshreppi að stefna á sameiningu Austur-Húnavatnssýslu í einu skrefi. Ýmsir nefndu að síðar geti sameinuð Austur-Húnavatnssýsla komið að sameiningu Norðurlands vestra í eitt sveitarfélag. Þá kemur fram í samantektinni að íbúar vilja sameinast öðrum sveitarfélögum á eigin forsendum án íhlutunar yfirvalda. Mikilvægt sé að undirbúa sameiningu vel og að áherslur íbúa t.d. varðandi þjónustustig og nýtingu húsnæðis á Húnavöllum verði haft til grundvallar í viðræðunum.

Atvinnumál og innviðir

Hvað atvinnumál og innviði varðar voru orkumál íbúum ofarlega í huga, s.s. þrífösun rafmagns, frekari hitaveituvæðing og nýting raforku innan svæðisins. Einnig var áhugi á nýsköpun og leiðum til að auka fjölbreytni atvinnulífs í sveitarfélaginu t.d. í ferðaþjónustu. Bent var á að huga þurfi betur að markaðssetningu sveitarfélagsins, ekki hvað síst til að efla ferðaþjónustu. Þá kom fram ríkur vilji til að bæta aðstöðu og stuðning við bændur t.d. með hrægámum, bættum girðingum, fjallaskálum og stofnun landbúnaðarnefndar.

Lesa má samantekt áherslna frá íbúafundinum hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga