Fréttir | 12. maí 2024 - kl. 14:13
Kormákur Hvöt tapaði á Dalvík

Kormákur Hvöt tók á móti Reyni Sandgerði í fyrsta „heimaleiknum“ í 2. deildinni í knattspyrnu karla í gær. Leikið var á Dalvík, en upphaflega stóð til að leika á Sauðárkróki þar sem grasvellir í Húnaþingi eru ekki klárir eftir veturinn. Gervigrasið á Sauðárkróki fór illa í vatnsveðri á dögunum og því var ákveðið að færa leikinn til Dalvíkur. Fyrri hálfleikur var fjörugur og á 20. mínútu skoruðu gestirnir fyrsta mark leiksins.

Níu mínútum síðar var Kormákur Hvöt búið að jafna leikinn og það gerði Atli Þór Sindrason. Á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Reynir mark og staðan í hálfleik 1-2 fyrir gestina. Það var voru ekki liðnar margar mínútur af seinni hálfleik þegar Reynir jók við forystu sína með marki og staðan orðin 1-3. Kormákur Hvöt átti engin svör og leikurinn fjaraði út. Svekkjandi niðurstaða og annað tapið í deildinni.

Næsti leikur fer fram á Ólafsfirði á föstudaginn klukkan 19:15 og er gegn Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar. KF hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum líkt og Kormákur Hvöt og því gefst kjörið tækifæri fyrir Húnvetninga að næla sér í fyrstu stigin í deildinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga