Fréttir | 14. júní 2013 - kl. 16:45
Engin nýmæli að konur annist sjúkraflutninga saman

Síðustu daga hefur verið fjallað um það í fréttum að í fyrsta sinn í sögu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefðu tvær konur ekið sjúkrabíl saman. Á Blönduósi og Skagaströnd hafa konur ekið sjúkrabílum saman um nokkurt skeið. Fjallað eru þetta í Fréttatímanum sem kom út í dag.

 

„Úti á landi hefur það tíðkast að konur aki sjúkrabílum saman en við tvær hérna erum reyndar ekki atvinnu slökkviliðsmenn en það eru vissar kröfur sem sjúkraflutningamenn þurfa að uppfylla,“ segir Gerður Beta Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur við Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi og sjúkraflutningamaður í samtali við Fréttatímann.

 

Marjolijn van Dijk sjúkraþjálfari er líka sjúkraflutningamaður á Blönduósi og hittist stundum þannig á að þær tvær aki saman. „Það er eitt og hálft ár síðan við tókum sjúkraflutningaréttindi saman. Á Skagaströnd eru líka tvær konur sem keyra sjúkrabíl saman. Við Marjolijn vinnum báðar í sama húsi og sjúkrabílarnir eru svo það er stuttur viðbragðstími. Við erum sjö sem skiptum með okkur vöktunum en ef eitthvað alvarlegt gerist bætast fleiri við. Það eru alltaf tveir á vaktinni og ósjaldan erum það við tvær svo þetta hefur tíðkast lengi,“ segir Gerður Beta í samtali við Fréttatímann.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga - New