Fréttir | 10. október 2013 - kl. 08:42
Húnavallaleið í einkaframkvæmd?

Vegagerðinni líst vel á að setja hluta vegaframkvæmda í einkaframkvæmd. Svokallaða Húnavallaleið (Svínavatnsleið) er nefnd sem dæmi um verkefni sem gæti hentað til slíks. Þetta kemur fram á Vísi.is en þar er rætt við Hrein Haraldsson vegamálastjóra um ummæli innanríkisráðherra í Fréttablaðinu um að hún vildi aukið samstarf hins opinbera við einkaaðila í vegaframkvæmdum.

„Miðað við þær forsendur sem ráðherrann leggur upp með líst okkur vel á að setja hluta vegaframkvæmda í einkaframkvæmd,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri í samtali við Vísi.is. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði við Fréttablaðið á dögunum að hún vildi auka samstarf hins opinbera við einkaaðila í vegaframkvæmdum.

Hreinn segir að Vegagerðin sé nú að skoða þá kosti sem í boði eru. Hann tekur sem dæmi að Sundabraut í Reykjavík, Svínvetningabraut í Húnavatnssýslu og vegur um Öxi séu vegaframkvæmdir sem hægt væri að setja í einkaframkvæmd. Þær uppfylli þau skilyrði sem innanríkisráðherra setur en það er að slíkar framkvæmdir komi ekki til álita nema vegfarendur hafi kost á annarri leið samhliða einkaframkvæmdinni.

Svínvetningabraut myndi liggja fyrir sunnan Blönduós og stytta hringveginn um 12 til 15 kílómetra eftir því hvaða vegstæði yrði valið. Vegfarendur hefðu val um hvort þeir færu um Blönduós eða færu Svínvetningaleið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga