Fréttir | 16. febrúar 2014 - kl. 22:31
Leiðarmenn gefast ekki upp

Umboðsmaður Alþingis gerir ekki athugasemdir við staðfestingu umhverfisráðherra á aðalskipulagi Blönduóssbæjar, Húnavatnshrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar en staðfestingin kom í maí 2012 eftir að þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hafði afturkallað tillögur Vegagerðarinnar um styttingu þjóðvegarins sem liggur um þessi sveitarfélög. Sagt er frá þessu í Morgunblaðinu á föstudaginn.

Þar kemur einnig fram að umboðsmaður gerir heldur ekki athugasemdir við aðkomu innanríkisráðherra í málinu. Ákvörðun ráðherra hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og samrýmst þeirri lögbundnu stefnumörkun sem er m.a. sett fram í samgönguáætlun fyrir árin 2011-2014 og 2011-2022. Umboðsmaður bendir á að í þeim áætlunum hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim vegaframkvæmdum sem Vegagerðin gerði tillögur um.

Stytting á hringveginum
Leið ehf., sem er félag um framþróun í samgöngum hér á landi, hafði sent umboðsmanni kvörtun vegna gerðar og staðfestingar á aðalskipulagi umræddra sveitarfélaga, sem gildir til 2030. Vildi félagið að þessar nýju veglínur yrðu hafðar með á aðalskipulaginu. Annars vegar var um að ræða svonefnda Húnavallaleið, frá þjóðvegi 1 við Brekkukot í Húnavatnshreppi yfir að þjóðvegi 1 við Skriðuland í Langadal, sem myndi stytta hringveginn um 14 km. Hins vegar var það Vindheimaleið í Skagafirði, vel sunnan við Varmahlíð og yfir í Blönduhlíð. Þessar vegstyttingar sjást nánar á meðfylgjandi korti.

Aðalskipulag sveitarfélaganna tafðist þar sem þáverandi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hafði að fenginni umfjöllun Skipulagsstofnunar beðið sveitarfélögin að fresta aðalskipulagi á þeim svæðum sem veglínurnar tilheyrðu. Höfðu sveitarfélögin áður hafnað því að setja veglínurnar inn á aðalskipulag og vildu ekki láta staðfesta það nema að línurnar færu út.

Í sameiginlegu bréfi sveitarfélaganna til umhverfisráðherra í mars 2012 óskuðu þau eftir því að ráðherra endurskoðaði fyrri afstöðu um að fresta bæri staðfestingu aðalskipulagsins. Í apríl sama ár dró Vegagerðin síðan tillögur sínar um veglínurnar til baka, samkvæmt ákvörðun innanríkisráðherra, og í maí hafði umhverfisráðherra loks staðfest aðalskipulagið.

Telja að málinu sé lokið
Niðurstaða umboðsmanns, ásamt bréfi frá Leið, hefur verið til umfjöllunar og kynningar hjá Blönduósbæ og sveitarfélaginu Skagafirði.

Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi, segir í samtali við Morgunblaðið að niðurstaða umboðsmanns komi sér ekki á óvart. Málið hafi verið unnið faglega af hálfu sveitarfélagsins allan tímann.

„Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar einn aðili fer fram með þeim hætti að þrýsta á og knýja fram vegalagningu gegn vilja íbúa á svæðinu,“ segir Arnar og vísar þar til félagsins Leiðar, sem hafi átt frumkvæði að tillögum um vegstyttingarnar, sem Vegagerðin hafi síðar tekið upp á sína arma.

Arnar segist líta svo á málinu sé lokið. Nú sé komið á aðalskipulag til ársins 2030 sem sýni hvernig samgönguleiðum verður háttað innan sveitarfélaganna.

„Áður fyrr var meiri áhersla lögð á að stytta leiðir milli þéttbýliskjarna. Nú er lögð áhersla á að tengja byggðarlögin betur saman. Frekar viljum við fara í vegbætur á milli Blönduóss og Skagafjarðar og stóri draumurinn væri að geta ekið úr Skagafirði yfir í Eyjafjörð undir Tröllskagann. En það er framtíðarmúsík og ekki komið á neinar áætlanir,“ segir Arnar Þór.

Ásta Björg Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði, tekur undir með Arnari og segir niðurstöðu umboðsmann ekki hafa komið sér á óvart. Eðlilega og faglega hafi verið að öllum málum staðið.

Í bréfi Leiðar til sveitarfélaganna, sem undirritað er af stjórnarformanni félagsins, Jónasi Guðmundssyni, sýslumanni í Bolungarvík, segir að ekki verði komist lengra með „þetta mikla hagsmunamál vegfarenda á leið milli vesturhluta landsins og Norðausturlands.“

Vonast eftir sátt við íbúana
Segir Jónas að ekki hafi þótt annað fært en að láta á álitaefni reyna fyrir umboðsmanni Alþingis sem hafi vaknað við ákvörðun innanríkisráðherra. Miklir hagsmunir hafi verið í húfi og margt orkað tvímælis í skipulagsferlinu. Nefnir Jónas þar ákvæði vegalaga um mikilsverða hagsmuni sem snúa að umferðaröryggi, sem og heimild ráðherra til að „taka fram fyrir hendur undirstofnunar sinnar, Vegagerðarinnar, á þann hátt sem gert var,“ eins og segir í bréfinu.

Leiðarmenn hafa hins vegar ekki gefist upp en í bréfinu gefur Jónas í skyn að hann, Leið eða aðrir aðilar muni leitast við að fá þeim reglum breytt sem leiddu til umræddrar niðurstöðu. Vonar hann að góð sátt megi skapast við íbúa sveitarfélaganna og fulltrúa þeirra um að gera ráð fyrir nýjum veglínum í bæði nýrri 12 ára samgönguáætlun fyrir árin 2015-2026 og væntanlegu landsskipulagi. Einnig megi gera ráð fyrir að óskað verði eftir því eftir næstu sveitarstjórnarkosningar að nýju veglínurnar fari inn á aðalskipulag, samanber ákvæði skipulagslaga. Heimild: Morgunblaðið 14. febrúar 2014

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga