Fréttir | 07. nóvember 2005 - kl. 18:03
Húsfyllir og góð stemning á tónleikum í Kaffi Viðvík

Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson í dúettinum “Hundur í óskilum” héldu tónleika í Kaffi Viðvík á Skagaströnd sl. fimmtudagskvöld. Húsfyllir var og stemningin einstaklega góð og fólk skemmti sér konunglega yfir frábærum uppátækjum í tónlist og tónlistarflutningi. Tvímenningarnir, sem segja má að séu einskonar gleði- og gáskatónlistamenn, léku sér að alls kyns tilbrigðum við þekkt lög og texta og blönduðu þeim gjarnan saman úr sitt hvorri áttinni. Má nefna að texti Bubba við “Stál og hnífur” hljómaði mjög skemmtilega við lag eftir kántrýkónginn Hallbjörn. Ekki síðri voru “Guttavísur” við lag eftir J.S. Bach eða lag og texti “Undir bláhimni” í útsetningu og í bland við “Wild thing” sem hljómsveitin Troggs flutti á árum áður.

 

Það voru ekki bara lög og textar sem sett voru í nýtt samhengi heldur var tónlistarflutningur, bæði söngur og hljóðfæraleikur, gjarna með sérstökum hætti sem langt mál væri að skýra. Þó má nefna að sökum fámennis í dúettinum tóku þeir félagar sig til og léku á fleiri en eitt hljóðfæri í einu t.d. spilaði Eiríkur á tvo trompeta samtímis og þeir hvor um sig á þrjár blokkflautur í einu, með nefi og munni. Allt var þetta gert af mikilli fagmennsku og þrátt fyrir ærslalegan flutning var allan tíman verið að flytja skemmtilega og vandaða tónlist. Hægt er að skoða myndir frá tónleikunum á Skagastrandarvefnum www.skagastrond.is. Heimild: skagastrond.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga