Fréttir | 16. júlí 2015 - kl. 12:59
Húnavaka á Blönduósi hefst í dag

Húnavaka, fjölskylduskemmtun Austur-Húnvetninga, verður formlega sett í dag klukkan 18:30 fyrir framan Hafíssetrið í gamla bænum. Að lokinni setningarathöfninni verða Umhverfisverðlaun Blönduósbæjar afhent, venju samkvæmt. Í gær tóku íbúar forskot á sæluna og skreyttu hús og götur en dagskrá Húnavöku er nú þegar hafin með opnun safna og setra á staðnum.

Í Heimilisiðnaðarsafninu má m.a. sjá sumarsýningu safnsins, Fínerí úr fórum formæðra. Í Laxasetrinu er lifandi sýning laxfiska og þar er einnig handverk til sölu. Í Hafíssetrinu er sýning um hafís í Hillebrantshúsinu sem er eitt af elstu timburhúsum landsins. Í Textílsetrinu eru sýningar í boði, jurtalitað band og vörur Guðrúnar Bjarnadóttur náttúrufræðings hjá Hespuhúsinu. Í Kvennaskólanum er einnig Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á Refli. Klukkan 16 í dag verður Sirkus Íslands með fjölskyldusýninguna Heima er best.

Grillpartý hefst í gamla bænum klukkan 18:40 eða að lokinni afhendingu Umhverfisverðlauna. Hver og einn kemur með mat og drykk fyrir sig og sína. Gestir eru minntir á að taka með borð og stóla. Þá eiga allir að koma með eftirrétt að eigin vali miðað við þann fjölda sem fylgir hverjum og einum á eftirréttahlaðborð sem hefst klukkan 20:00. Verðlaun verða veitt fyrir frumlegasta og flottasta eftirréttinn. Að loknu grillpartýinu og eftirréttahlaðborðinu verður boðið upp á leiki og fjör í gamla bænum og þar mun fara fram hæfileikakeppni milli hverfa. Klukkan 22:30 verður haldin Pub Quiz spurningakeppni þar sem allar spurningarnar verða um Blönduós.

Föstudagur
Dagskráin á morgun, föstudag, hefst klukkan 8 með opnun ljósmyndasýningar í íþróttahúsinu. Áhugaljósmyndararnir Róbert Daníel Jónsson, Daníel Máni Róbertsson og Höskuldur Birkir Erlingsson verða með ljósmyndasýningu. Sýningin, sem er sölusýning, verður prýdd fuglaljósmyndum sem þeir félagar hafa tekið. Verða myndir til sýnis í anddyrinu og einnig í heitu pottunum.

Virkir morgnar munu koma sér fyrir á Blönduósi í fyrramálið og sjá um beina útsendingu frá Rás 2. Seinni partinn mæta svo Benedikt, Fannar og Salka Sól með þáttinn Sumardagar á Rúv og verða með unnin innslög og beina útsendingu frá Húnavökunni.

Stóri fyrirtækjadagurinn stendur frá klukkan 12 til 16 á morgun og bókamarkaður verður í Héraðsbókasafninu frá 14 til 18. Á milli klukkan 17 og 19 verður tekið á móti sultum í Sultukeppnina. Sirkus Íslands verður með tvær sýningar, klukkan 16 og 20. Klukkan 20 hefst knattspyrnuleikur á Blönduósvelli þar sem Kormákur/Hvöt tekur á móti KB í fjórðu deild karla í knattspyrnu.

Föstudagurinn endar svo með 16 ára balli með Steinda JR, Bent og félögum í Félagsheimilinu.

Laugardagur
Dagskráin á laugardaginn hefst klukkan 9 með golfmóti á Vatnahverfisvelli en mótið heitir Opna Gámaþjónustumótið. Á sama tíma hefst útsýnisflug Flugklúbbs Blönduóss, ef veður og aðstæður leyfa. Þá verður þátturinn Bergsson og Blöndal með beina útsendingu á Rás 2.

Söngprufur í Míkróhúninum hefjast klukkan 11 og er skráning á staðnum. Á sama tíma hefst Blönduhlaup USAH og er skráning á staðnum milli klukkan 10 og 11 í anddyri Félagsheimilisins. Verðlaunaafhending í Blönduhlaupinu fer fram klukkan 13:30 við Félagsheimilið.

Milli klukkan 14 og 16 verður fjör við Félagsheimilið. Þar verður markaðsstemning, Míkróhúnninn, Sirkus Íslands, Anna og Frikki taka nokkur lög, Skoppa og Skrítla, Kassabílarallý, hoppukastalar, Smaladrengirnir taka rúnt og sýna mótorhjólin sín og Kjötmeistarafélag Íslands grillar lambakjöt fyrir gesti og gangandi í boði Landssambands sauðfjárbænda.

Milli klukkan 15 og 17 verður opið hús í Blönduskóla fyrir þá árganga sem hittast á Húnavöku. Hægt verður að ganga um skólann og rifja upp gamlar minningar.

Kvöldvakan í Fagrahvammi stendur frá klukkan 20:30 til 22:30. Felix Bergsson er kynnir og verða verðlaun veitt fyrir sultukeppnina og fyrir best skreytta húsið og götuna. Sigurvegarar í Míkróhúninum munu taka lagið og keppt verður í reiptogi og sjómanna milli hverfa. Hljómsveitin Demó tekur nokkur lög og stjórnar bakkasöng og fjöldakassagítarleik. Þá ætlar diskókóngurinn Páll Óskar að taka nokkur lög líka. Á svæðinu verður auðvitað varðeldur.

Sirkus Íslands er með sýninguna Skinnsemi klukkan 23 og á sama tíma hefst diskótek í Félagsheimilinu þar sem Páll Óskar sér um að halda upp stuðinu.

Sunnudagur
Dagskrá sunnudagsins hefst klukkan 10 með opnun setra og safna auk ljósmyndasýningar í íþróttahúsinu. Klukkan 11 til 12 verður Prjónaganga á Húnavöku en um er að ræða fyrstu prjónagönguna á Blönduósi. Lagt verður af stað, prjónandi frá Hótel Blönduósi og gengið yfir á Kvennaskólalóðina, með nokkrum stöðum til að skoða prjónagraffið sem er hið fyrsta hér um slóðir.

Milli klukkan 13 og 14 verður hægt að renna sér í sápurennibraut í Kirkjubrekkunni og klukkan 14 verða notalegheit í Heimilisiðnaðarsafninu. Í tilefni dagsins eru konur hvattar til að klæða sig uppá í íslenska búning og fá þær sem það gera ókeypis aðgang að safninu.

Milli klukkan 14 og 16 verður opið hús hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi á hjúkrunar- og dvalardeild.

Hér hefur verið stiklað á stóru í dagskrá Húnavöku en hana má nálgast á Facebook síðu hátíðarinnar eða með því að ná í Húnavökubæklinginn sem er um 7 mb að stærð hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga