Kvennaskólinn á Blönduósi
Kvennaskólinn á Blönduósi
Pistlar | 14. september 2015 - kl. 10:02
Stökuspjall: Einmitt slík var “ móðir þín
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Gott var að koma til Blönduóss um nónbil á laugardag, ekki síst þeim sem eiga vísa vist í Hnitbjörgum, fjölbýlishúsi með bókasafni á miðjum efri gangi og stórum vesturgluggum. Húsið stendur innarlega í þorpinu, í húsaþyrpingunni við Héraðshælið. Nokkrar bækur um sögu Húnvetninga eru í safninu en merkust og fágætust er 60 ára saga Kvennaskólans. Bókin hefst á 2 ljóðum, Vorljóði Páls Kolka læknis og minni Kvennaskóla Húnvetninga eftir Ingibjörgu Benediktsdóttur sem óx upp úti í Hofs-og Spákonufellssóknum. Ingibjörg kenndi við Kvennaskólann 1910 -12. Ingibjörg segir í ljóði sínu:

Hér skal mennta önd og anda,
hún vill jafnt að vígi standa
bróður eða unnustanum.
Einmitt slík var – móðir þín.

Ingibjörg kom utan frá Bergsstöðum á Hallárdal, sem Baldvin skáldi orti um eftirminnilega:

Fögur kallast kann hér sveit,
krappur fjallasalur.
Þó hefur galla, það ég veit,
þessi Hallárdalur.

Um Langadalinn lá þjóðleið að norðan og þar á Þorbrandsstöðum fæddist snjall hagyrðingur af kyni Kvæða-Ketils, Hans Natansson, sem síðar bjó á Þóreyjarnúpi. Hans orti um sveitunga sína:

Langdælingar lifa við
lítil efni kátir
elska hefð og sómasið
og sýnast mikillátir.

Vestan úr Árneshreppi er önnur sveitavísa þar sem upp eru taldir bæirnir:

Nöfnin sex ég nefni: Nes og Finnbogastað.
Fjórum fjörðum ég stefni Felli og Melum að.
Læt ég Dranga í ljós, líka Hlíðarós,
víkur sjö, Veiðileysi og Vogur, Kambur, Kjós og Gjögur,
Bær og Eyri, – ekki man ég fleiri.

Ljúkum nú stökuspjalli með erindi úr ljóði Ingibjargar um gamla skólann sinn. Hún dregur þar upp mynd af ömmu sem engan kost átti á skólagöngu þó þráin kviknaði:

Sjáðu! Hljóð frá heiðabænum
horfir fram með hvömmum grænum
sveitamær með sól í augum,
sumarblik á vöngum skín.
Óljós, feimin útþrá seiddi,
inn á nýjar brautir leiddi,
augu hennar hingað mændu.
Hógvær stóð þar – amma þín.

Á döfinni er málþing um handverkskonuna Jóhönnu á Svínavatni. Það verður haldið sunnudaginn 27.sept í Þekkingarsetrinu í Kvennaskólanum á Blönduósi. Þar verður Iðunn Vignisdóttir meðal frummælanda, en hún starfar nú að söguritun um þessa þýðingarmiklu menntastofnun, Kvennaskóla Húnvetninga. http://www.tsb.is/is/read/2015/08/26/malthing-um-johonnu-johannesdottur-fra-svinavatni

Vísað er til:
Ingibjörg kennari og skáld Benediktsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=i0&ID=17694

Baldvin skáldi: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=5690

Hans Natansson bóndi í Hvammi í Langadal og á Þóreyjarnúpi: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=7659

Bæjavísa úr Árneshreppi: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24979

Eldra stökuspjall:
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180

Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129

Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga