Brúin sem hrundi. Mynd: Jón Kristófer Sigmarsson
Brúin sem hrundi. Mynd: Jón Kristófer Sigmarsson
Fréttir | 22. september 2015 - kl. 21:27
Alvarlegar athugasemdir gerðar vegna brúarframkvæmda í Vatnsdal

Minjastofnun Íslands hefur gert alvarlegar athugasemdir við að hafist var handa við að brúa Vatnsdalsá við Grímstungu að nýju áður en minjavörður hafði tækifæri til að skoða aðstæður. Þá gerir skipulagsfulltrú alvarlegar athugasemdir við að verkið var hafið áður en framkvæmdaleyfi var gefið út. Sveitarstjórn Húnavatnshrepps fagnar því hins vegar að framkvæmdir hafi gengið hratt fyrir sig en bráðabirgðabrúin er tilbúin og hefur umferð verið hleypt á hana.

Á sveitarstjórnarfundi Húnavatnshrepps í dag var lagt fram til kynningar erindi frá Vegagerðinni sem sent var í tölvupósti 3. september síðastliðinn og varðar umsókn um framkvæmdaleyfi til að byggja bráðabirgðabrú yfir Vatnsdalsá við Grímstungu og vegtengingar að henni. Jákvæðar umsagnir bárust frá Veiðimálastofnun, Veiðifélagi Vatnsdalsár, Fiskistofu og landeigendum og gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi 11. september síðastliðinn að fengnum tilskyldum umsögnum.

Brúin yfir Vatnsdalsá fremst í Forsæludal við Grímstungu hrundi 18. ágúst síðastliðinn þegar flutningabíll með eftirvagn ók yfir hana. Verið var að flytja farm yfir brúna vegna framkvæmda í dalnum þegar hún hrundi. Í kjölfarið krafðist sveitarstjórn Húnavatnshrepps þess að Vegagerðin myndi byggja nýja brú yfir ána sem fyrst á svipuðum stað til að samgöngur innan sveitarfélagsins yrðu tryggðar.

Vegagerðin gaf það út í byrjun þessa mánaðar að hún ætlaði að byggja bráðabirgðabrú yfir Vatnsdalsá og yrði hún um fimmtíu metrum neðan en gamla brúarstæðið. Brúarsmíðin átti að taka tvær vikur. Bráðabirgðabrúin er nú tilbúin og hefur umferð verið hleypt á hana eins og áður sagði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga