Hvítserkur
Hvítserkur
Pistlar | 13. nóvember 2015 - kl. 13:49
Stökuspjall - Stjarnlaus nóttin
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Náttúruöflin lifa sjálfstæðu lífi í ljóðum Lorca og birtast þar gjarnan sem persónur eða lifandi verur. Eitthvert skýrasta dæmi þess í Sígaunaljóðum er vindurinn í þulunni Presíósa og í þulunni um heilagan Mikjál umbreytast skýin í naut. Svo skrifar Kristján Eiríksson íslenskufræðingur í formála að þýðingum sínum á ljóðum Lorca, en Kristján kom á sínum tíma vísnavef Skagfirðinga á laggirnar og hefur síðan laðað fleiri til að safna vísum og ljóðum í heimabyggðum sínum, setja inn á vefinn auk fróðleiks um höfunda ljóða og tildrög vísna þegar svo ber undir.

Stjarnlaus nóttin stekkur undan
stríðum trumbuslætti hennar
út á hafið fullt af fiski,
freyðir nóttin þar og kveður. Úr Presíósa og vindurinn

Kristján sinnti kennslu auk fræðistarfa, lengst við Menntaskólann á Laugarvatni, starfaði einnig við háskólakennslu úti í Noregi en síðustu árin hefur hann starfað á Árnastofnun. Kristján verður sjötugur 19. nóvember og fær hlýjar kveðjur frá stökusöfnurum  og versavinum.

Köld var vetrarkveðjan þín,
kenndi ég smátt af ylnum.
Sólarþyrsta sálin mín
svalt í norðanbylnum. BBl.

Þeir sem gengu daglega um lágar tóftardyr ortu með öðru lagi en við sem njótum hlýrra húsa og greiðra ferða á nýrri öld. En nokkurs virði er að geta skoðað vísnasnið feðra okkar – og mæðra um leið og við sjáum baráttu þeirra, stundum í heyskorti, stundum í barnadauða en oftar en ekki í fátækt þó andinn kæmist stundum að himinskautum. Björn var snjall hagyrðingur og á margar vísur á vefnum:

Aldinn verma atlot hlý
entu dags að vosi.
Þá er mestur ylur í
yngsta fólksins brosi. BBl

Ég er votur, víða kalt
varla þrot á trega.
Lífið potast áfram allt
ekki notalega. BBl

Góð aðsókn var að fyrsta fundi um húnvetnsk fræði í Húnabúð sem hófst kl. 17 á miðvikudaginn var og fyrirlesarinn Jón frá Torfalæk leiddi fundargesti upp á Jörundartind, heilsaði upp á bræðurna á Stóru-Giljá, kom við á útsvarsfundi hreppsnefndarinnar, skrapp með semingi fram í dalina og greindi frá Þórdísi á Vindhæli og búsæld bæjanna undir brekkunni við Króksbjarg. Ragnar Arnalds rithöfundur mun segja frá Þórdísi eftir tvær vikur. En á næsta fundi, miðvikud. 18. nóv. mun Þór Magnússon, höfundur árbókar FÍ um Vestur-Húnavatnssýslu og fv. þjóðminjavörður, fylgja fundarmönnum út á Vatnsnes og um grösuga dali Húnavatnssýslu, hinn vestari hluta.

Vísað er til:
Kristján Eiríksson frá Fagranesi: http://bragi.info/hofundur.php?ID=16975&ut=1
Frederico García Lorca Sígunaljóð Rv. 2005 í þýðingu Kristjáns Eiríkssonar
Björn S. Blöndal: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=16933

Eldra stökuspjall:
Rennur saman haf og himinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12328
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12221  
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga