Vatnsnes
Vatnsnes
Pistlar | 23. desember 2015 - kl. 09:01
Stökuspjall - Blikar á dökkan sandinn
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Þegar hret og hreggviðrin
herða vetrareinkennin
verið getur geðlempinn
gamli ketill vinur minn. SG  

Vísan sú arna geymdist í hugum Skagamanna, er skráð af Magnúsi á Syðra-Hóli þegar hann segir frá sjómönnum undir Brekku og búskap þeirra. Orðið að lempa er ungt í íslensku máli, elstu dæmi af því frá 1700 og vera má að þessi hnittna samsetning, geðlempinn, hafi orðið til þess að vísan geymdist og tengdi þannig nafn höfundar hagyrðingastéttinni.

Vestur á Hólmavík orti Brynjólfur ráðunautur um vorið:

Þegar vorsins munamál
mestum töfrum valda
bindur hugur sál við sál
saman þúsundfalda.

Blönduósingurinn og Svarfdælingurinn, Ingibjörg Vilhjálmsdóttir, móðir Ragnars heitins Tómassonar og amma Tómasar R. bassaleikara orti myndríka vísu og fléttar saman á snjallan hátt haustið í hugskotinu og myndinni af því út við ósinn:

Þegar báran braut við naust
blikaði á dökkan sandinn.
Er minn hugur undir haust,
ærið kvíðablandinn. IV

Svo bætist ástavísa utan af Strönd í vísnablandið:

Þegar kemur þú til mín
þrái ég fyllri kynni,
er sem kveiki augu þín
eld í sálu minni. KH

Vatnsnesingurinn snjalli en skammlífi, Sigurður í Katadal yrkir:

Þegar fjandinn þrætulog
þróar anda svala
það er vandi að þegja og
það er grand að tala.

Vísurnar í þessu spjalli tengir saman að þær hefjast allar á samtengingunni þegar og er þó enn óskráð ein eftir hagyrðing úr frægri kvæðamannasveit, ofan af hinum háa Laxárdal. Jón bóndi í Gautsdal, sem á góða vist í elli sinni á Héraðshælinu, hefur ort nokkrar vísur í tilefni afmæla sinna. En hann á líka sína þegar-vísu:

Þegar slokknar lítið ljós
lífsins kvalir dvína:
Viltu leggja litla rós
á líkkistuna mína. JRG

Hér að neðan er tengill á allar þ-vísur á Húnaflóavefnum þar sem sjá má fjölda þeirra vísna sem byrja á orðinu þegar. Mörgum er þó væntanlega enn ósafnað til vefsins og vonandi eru líka margar óortar.

Hlýjar óskir um gleðileg jól og gott nýtt ár vill vefsýslumaður senda lesendum stökuspjallsins og þakka samskiptin á liðnum misserum og árum.

 Vísað er til:
Getur verið geðlempinn http://stikill.123.is/blog/2009/10/29/410564/
Ritmálsdæmi um orðið lempinn: http://lexis.hi.is/cgi-bin/ritmal/leitord.cgi?adg=daemi&n=291021&s=351459&l=lempinn
Brynjólfur á Hólmavík: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17198
Ingibjörg Vilhjálmsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17339
Kristján Hjartarson: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=k0&ID=17482
Sigurður í Katadal: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=25943
Jón í Gautsdal: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?U=j0&ID=17712
Þ-vísur á Húnaflóavefnum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?st=z3

Eldra stökuspjall:
Svellar að skörum: http://www.huni.is/index.php?cid=12430
Mjallar fríða trafið: http://www.huni.is/index.php?cid=12398
Kalda vatnið kemur mér upp: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12381
Stjarnlaus nóttin: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12367
Rennur saman haf og himinn: http://www.huni.is/index.php?cid=12328
Stutt eða löng töf: http://www.huni.is/index.php?cid=12272
Kjarval málar http://www.huni.is/index.php?cid=12221
Einmitt slík var – móðir þín http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12203
Heiðin magnar seið: http://www.huni.is/index.php?cid=12180
Útsunnan við mána: http://www.huni.is/index.php?cid=12129
Drottning Húnaflóa: http://www.huni.is/index.php?cid=12080

Ingi Heiðmar Jónsson 

Hf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga