Fréttir | 21. september 2016 - kl. 16:40
Útsvarstekjur gætu lækkað um 6,5 milljónir

Gera má ráð fyrir að útsvarstekjur Húnaþings vestra lækki um 6,5 milljónir króna á ári vegna boðaðrar lækkunar á afurðaverði til sauðfjárbænda í sveitarfélaginu. Þetta er mat Félags sauðfjárbænda í Húnaþingi vestra. Ólafur Benediktsson, formaður félagsins, ásamt Matthildi Hjálmsdóttur, mættu á fund byggðarráðs Húnaþings vestra á mánudaginn og kynntu samantekt um mat félagins á áhrifum lækkunar afurðaverðs á afkomu bænda á svæðinu.

Byggðarráð hefur áður lýst yfir þungum áhyggjum vegna ákvarðana sláturleyfishafa um 8-12% lækkun á afurðarverði til sauðfjárbænda í yfirstandandi sláturtíð. Ráðið telur það óásættanlegt að bændur einir skulu þurfa að taka á sig að rétta af rekstur afurðastöðva sem hafi verið þungur um nokkurt skeið. Byggðaráð hefur skorað á alla hlutaðeigandi að leita allra leiða til að tryggja sauðfjárbændum ásættanlegt verð fyrir afurðir sínar og styrkja þannig rekstrargrundvöll sauðfjárbúa.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga