Sigfús Benedikt Björnsson Blöndal og Björg C. Þorláksson.
Sigfús Benedikt Björnsson Blöndal og Björg C. Þorláksson.
Pistlar | 23. janúar 2017 - kl. 12:46
Stökuspjall: Geislinn mánabjartur
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Konan kemur við sögu er bókartitill frá síðasta ári, útgefið af Árnastofnun til að minnast 100 ára kosningaréttar kvenna. Þar er að finna 52 þætti, jafnmarga vikum ársins, skemmtilega og fróðlega og ríkulega búna myndum. Þessi bók er góð eign. Marga þættina má finna á heimasíðu stofnunarinnar. Þættirnir bera nöfn eins og: Pils, piparmeyjar og sveinar, Af konum og kvendrekum, Alls konar kerlingar, Björg C. Þorláksson og orðabókarstörf hennar, Konur og kerlingar í landslaginu, Söngva-Borga og Galdra-Manga, Sorg Helgu Jónsdóttur úr Vatnsfirði svo fátt eitt sé talið. Vísa Hjallalands-Helgu um litlu Jörp fær þar rúm, en hún kvað á áttræðisaldri:

Mér í augum æfin vex,
á því títt fæ klifað,
árin hef ég sjötíu og sex
sorgum blönduð lifað. HÞ

Jón í Gautsdal orti af sama tilefni:

Áttatíu árin löng
eru nú að baki
elli kerling eiturströng
ógnar heldur taki. JRH

Guðmundur á Illugastöðum gerði skopmynd af gamalmenni sínu og lagði ungmey í munn:

Situr hljóður, hendur nýr,
hanga slóðir brúna.
Yfir góðu geði býr
gamli skrjóður núna. GK

Þegar hér er komið Stökuspjalli á sunnudagskvöldi berast þær ljúfu fréttir á Húnahorni að tónlistarmaður hafi hlotið útnefningu sem maður ársins í Austur-Húnavatnssýslu. Skarphéðinn H. Einarsson hefur lengi staðið vaktina og eflt tónmennt meðal Húnvetninga, þar eru rætur hans og þar birtist uppskeran. Af Einari Andréssyni, forföður Skarphéðins er mikill ættbogi kominn og sinna sumir orðsins list eða annarri góðri, en Einar sá bjó út í Fljótum áður en hann flutti að Þorbrandsstöðum í Langadal. Einar bjó líka á Bólu í Blönduhlíð og orti fallega um það jarðnæði:

Mig í skjóli fyrir fel 
frostagjólum köldum 
þar sem Bóla, byggð á mel, 
birtu sólar nýtur vel. EA

Aðra á Einar, ótrúlega létta og látlausa en myndríka:

Eilífðar ég er á vog 
eins og fisi svari 
eða þegar lítið log 
lifir á kuldaskari. EA

Dótturdóttir Einars og amma Skarphéðins H. Einarssonar er Rakel Bessadóttir og einnig snjall vísnasmiður eins og margir ættmenn þeirra:

Aftur skánar, er mín trú,
eyðist fáninn svartur
því að gljána gyllir nú
geislinn mánabjartur. RB

Vísað er til:
Stofnun Árna Magnússonar/Konan í sögunni: http://www.arnastofnun.is/page/aldarafmaeli 
Alls konar kerlingar: http://www.arnastofnun.is/page/gudrun_kvaran_alls_konar_kerlingar 
Helga Þórarinsdóttir: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=15312 
Jón Ragnar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=25867 
Viðtal Arnþórs við Jón heima í Gautsdal: http://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1108726/ 
Guðmundur Ketilsson: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24596 
Einar Andrésson: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=5740 
Einar Andrésson: https://handrit.is/is/biography/view/EinAnd001 
Rakel Bessadóttir: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24825

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga