Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 15. febrúar 2017 - kl. 22:19
Brotalamir í starfsemi sambýlis á Blönduósi

Ólögmætri nauðung og þvingun er beitt á sambýlinu á Blönduósi. Þetta er úrskurður sérfræðiteymis innan velferðarráðuneytisins síðan í fyrra. Stjórnvöld hafa vitað um brotalamir í starfsemi sambýlisins síðan 2011. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá þessu. Ástandið er óviðunandi, segja bæði fyrrverandi starfsmaður og lögráðamaður vistmanns.

Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að réttindagæslumaðurinn á Norðurlandi hafi haft samband við starfsmenn réttindavaktarinnar, sem jafnframt eru starfsmenn ráðuneytisins, vorið 2011 og rætt um að ýmsar brotalamir virtust í rekstrinum og að þörf væri fyrir faglega ráðgjöf. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær vegna málsins segir að réttindagæslumaðurinn hafi eftir það heimsótt heimilið reglulega og látið vita af því sem betur mætti fara í aðbúnaði og starfi.

Í fréttinni kemur fram að sambýlið á Blönduósi hafi verið starfrækt síðan 1994 og opnaði það skömmu eftir að Kópavogshæli var í raun lagt niður. Pláss sé fyrir fjóra einstaklinga og séu vistmenn allt fullorðnir karlmenn með mikla fötlun. Þeir komi annað hvort frá Kópavogshæli eða Sólborg. Um sé að ræða mikið fatlaða einstaklinga sem geti lítið sem ekkert tjáð sig með máli.

Benedikt Lafleur starfaði á sambýlinu síðasta sumar. Hann sendi bréf til Réttindavaktarinnar í vikunni þar sem hann lýsir brotum á réttindum íbúanna, þvingun eða nauðung af hendi starfsfólks og jafnvel ofbeldisfullri hegðun, að íbúar hafi skriðið mest á gólfinu og settir í náttföt um klukkan fjögur. Hann segir ástandið óviðunandi. „Mér leið svolítið eins og ég væri í fangelsi. Því miður,” segir Benedikt. Hann hafi fengið áfall þegar hann hóf störf.

Fram kemur í fréttinni að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi tekið við ábyrgð á þjónustunni í ársbyrjun 2016 og að réttindavaktinni hafi borist bréf frá sveitarfélaginu, þar sem tekið sé undir með Benedikt að margt mætti betur fara, þó að markvisst hafi verið unnið að úrbótum síðan í fyrra.

Frétt Ríkisútvarpsins má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga