Fréttir | 17. febrúar 2017 - kl. 15:04
Breyting á Aðalskipulagi Húnavatnshrepps

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps samþykkti nýverið að leita umsagna um skipulags- og matslýsingu vegna breytinga á Aðalskipulagi Húnavatnshrepps 2010-2022. Breytingin er gerð vegna fjölgunar á efnistökustöðum, nýs verslunar- og þjónustusvæðis á Sveinsstöðum og nýs athafnasvæðis á Húnavöllum.

Íbúum og hagsmunaaðilum er gefinn kostur á að leggja fram sjónarmið, ábendingar og athugasemdir við skipulags- og matslýsinguna og skal þeim skilað skriflega á skrifstofu Húnavatnshrepps, Húnavöllum, 541 Blönduós eða á netfangið bthe@itn.is fyrir 15. mars næstkomandi.

Megin tilgangur breytinga vegna efnistökustaða er að móta frekari stefnu um efnistökusvæði í Húnavatnshreppi og setja inn ákvæði í aðalskipulagi sem geta orðið grundvöllur veitingar framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku. Markmið breytingarinnar er að tryggja að sem minnst rask verði af efnistökusvæðum og nágrenni þeirra og að frágangur að vinnslutíma loknum verði snyrtilegur og falli sem best að umhverfi og að atvinnulíf þróist eðlilega í sveitarfélaginu.

Gerð er breyting í landi Sveinsstaða þar sem gert verður ráð fyrir nýrri frístundabyggð og svæði fyrir verslun og þjónustu. Deiliskipulag fyrir svæðið verður auglýst samhliða aðalskipulagsbreytingunni. Einnig er gerð breyting innan þéttbýlisins að Húnavöllum þar sem bætt er við nýju athafnasvæði.

Sjá má skipulags- og matslýsinguna hér.

Sjá má auglýsingu sveitarfélagsins hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga