Ljósm: Róbert Daníel.
Ljósm: Róbert Daníel.
Pistlar | 18. apríl 2017 - kl. 09:18
Sögufélagsfundur á laugardag & Stökuspjall: Vakir gleði
eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sögufélagið Húnvetningur heldur aðalfund sinn á laugardaginn (22/4) kl. 14 í Eyvindarstofu/B&S Restaurant á Blönduósi. Auk venjulegra aðalfundarstarfa mun Sesselja Þórðardóttir kennari flytja og fjalla um efni bréfs er ritað var á fyrstu starfsmánuðum nýju ráðskonunnar í Sauðanesi, hennar Sesselju Þórðardóttur 1888-1942. Bréfritari var Guðrún Þorfinns en viðtakandi bréfs Jóhanna Þórðardóttir á Blönduósi. Fyrirlesari gerði í vetur þátt af þessu efni og flutti í fyrirlestraröðinni í Húnabúð í nóvember og nefndi þáttinn: Sumir eru að segja að hún muni nú ílengjast þar. Fundurinn stendur væntanlega 2 - 3 tíma og þar verður borið fram kaffi sem fundargestir greiða sjálfir. Annað árgjald er ekki í Sögufélaginu og eru allir velkomnir.

Áhugasömum sem dvelja utan héraðs er bent á strætó 57 sem ekur úr Mjóddinni kl. 9 og skilar farþegum kl. 13 á Blönduós. Á suðurleið verður vagninn kl. 18.30 og stansar í N1-skálanum, næsta húsi við Eyvindarstofu og er kominn aftur suður í Mjóddina kl. 22.45.

Kemur nú að stökuspjalli: Hringjarinn við Hraungerðiskirkju sem einnig er vefsýslumaður við Árnesingavef rímaði þannig kveðju sína og bjartsýni í sól og blíðviðri páskadags:

Upp rís sól og allt er bjart
örvast líf í gáska.
Brátt vex gróður – gullið skart
–  gleðilega páska. GSt.

Síðasta vísan/ljóðið sem nýnefndur safnari setti á Árnesingavef hljóðar svo:

Dansinn dunar kátt
dyr í hálfa gátt.
Kuldalegur rómur
kallar hátt:
„Kirkjan sekkur brátt"

Og ótal raddir svara:
„Sökkvi hún bara"   Jón Thor Haraldsson

Náma af mergjuðum stökum og gömlum er vísnabókin Eg skal kveða við þig vel. Í bókinni er hringhenda sem Bragi Sveinsson frá Flögu yrkir um Aðalstein eina sem er kannski piparmenni fremur en að hann sé einbúi. Í manntali 1920 finnst einhleypur og ungur bóndi á Öxnhóli, Aðalsteinn Sigurðsson, sem gæti átt þessa vísu skilið. Íslendingabók fræðir betur: Aðalsteinn sinnti oddvita- og bóndastarfi, bjó á Öxnhóli og náði nær 78 ára aldri. Ólmari vörgum þýðir væntanlega hrós fyrir dugnað:

Dregur björg í búið einn
betur mörgum halnum
ólmari vörgum Aðalsteinn
innst í Hörgárdalnum.

Ragnar Böðvarsson, fræðimaður og snjall stökusmiður, var í för með Sunnlendingum  vorið 2012 er þeir komu norður í Húnaver að heimsækja skáldið úr dalnum og syngja ljóðin hans, þ. e. Gísla Ólafsson frá Eiríksstöðum. Ljóð Gísla og saga voru þá sett í öndvegi og margir afkomendur Gísla og sveitungar komu saman í dalnum hans af því tilefni.

Ragnar orti ferðaljóð handa félögum sínum sem hefst þannig:

Löngum heillar ferðalang fjarlægðin blá
förum nú um Húnaþing grösugt og lokkandi.
Vakna minni útlegðar öræfum frá
ógnarsaga rifjast upp Þrístöpum hjá.
Margur er hér snöggur að snúa ræðu í brag
snilldarvísur Skáld-Rósu lifa enn í dag.
Lækjarvísur Gísla má löngum vítt um byggðir heyra.
Ljúflega fimmundarstemmurnar hljóma við. RB

Seinni vísuna má finna á Húnaflóa – vísnavef og syngja við lagið Svífur yfir Esjunni.

Vinur Ragnars, Brynjólfur ráðunautur á Hólmarvík, orti vorvísuna sem fær það hlutverk að slá botninn í Stökuspjallið. Gleðilegt sumar!

Vakir gleði, vaknar þrá
villtu léttast sporin.
Alltaf gerist okkur hjá
yndislegt á vorin.

Vísað er til:
Nóvemberfyrirlestrar í Húnabúð: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=13292
Ballið í Hruna: http://bragi.info/arnes/ljod.php?ID=5319
Vísa úr Hörgárdal: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=29626
Öxnhóll/manntal 1920 Aðalsteinn 27 ára: http://manntal.is/leit/itarleit=(leitarord=a%C3%B0alsteinn;heimili=null;sysla=null;sokn=skri%C3%B0uhreppur;stada=null;aldur=null;kyn=null)/1920/1/1920/38048/4036
Eg skal kveða við þig vel – vísur á Húnaflóavef úr þessari vísnabók: http://bragi.info/hunafloi/vardveisla.php?ID=7868
Vísnasafn Hörgársveitar: http://www.horgarsveit.is/default.asp?sid_id=30376&tId=1&Tre_Rod=005|009|&qsr
Skáldið úr dalnum: http://stikill.123.is/blog/2012/05/27/615595/
Öxlin gnæfir yfir Þingið: http://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12707
Húnaflóavísur RB: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5105
Vorvísa frá Hólmavík: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24184
Örnefni í Austur-Húnavatnssýslu: https://www.dropbox.com/sh/ww5i6xktgfppi7e/AADsv_0gPuWsM8n35l_ohkKYa?dl=0

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga