Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi
Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi
Fréttir | 16. maí 2017 - kl. 11:08
Skorað á ráðuneyti að standa við efndir

Hlutastarfandi sjúkraflutningamenn hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi, Siglufirði, Dalvík, Húsavík, Raufarhöfn og Þórshöfn skora á velferðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið að semja hratt og örugglega við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um nýjan kjarasamning. Einnig er skorað á ráðuneytin að standa við þær efndir sem fram koma í bókun 2 í kjarasamningi ríkisins við hlutastarfandi sjúkraflutningamenn.

„Við sjúkraflutningamenn teljum kjör og réttindi okkar ekki boðleg fyrir þá miklu skuldbindingu og ábyrgð sem felst í að standa bakvaktir og sinna útköllum, sem hafa aukist frá ári til árs meðal annars vegna fjölgunar ferðamanna,“ segir í ályktun sjúkraflutningamanna hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands frá 11. maí síðastliðnum.

Sex sjúkraflutningamenn í hlutastarfi hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi hafa sagt upp störfum. Haft var eftir Þórði Pálssyni, sjúkraflutningamanni á Blönduósi, í fréttum í síðasta mánuði að ástæða uppsagna væri fyrst og fremst mikil óánægja með laun og að loforð hafi verið svikin.

Kjör geta ekki verið óbreytt
Í bókun 2 í kjarasamningi segir: „Þróun sjúkraflutninga og menntun starfsmanna hefur verið með þeim hætti að fyrirkomulag ráðninga og kjara getur ekki verið með óbreyttum hætti miðað við þær kröfur sem mæta á í dag.“

Í ályktuninni krefjast 23 hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands sjúkraflutningamenn að samið verði um réttindi, kaup og kjör til að tryggja örugga starfsrækslu heilbrigðisstofnana og að sjúkraflutningamenn í hlutastörfum njóti hliðstæðra kjara og réttinda sem og aðrir starfsmenn ríkisins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga