Hildur Þóra Magnúsdóttir frumkvöðull og stofnandi Pure Natura.
Hildur Þóra Magnúsdóttir frumkvöðull og stofnandi Pure Natura.
Fréttir | 16. maí 2017 - kl. 13:13
Pure Natura tilnefnt til verðlauna

Skagfirska frumkvöðlafyrirtækið Pure Natura hefur verið tilnefnt sem fulltrúi Íslands í norrænu matakeppnina EMBLA-Nordic food award 2017. Pure Natura framleiðir vítamín og fæðubótarefni úr innmat og kirtlum úr íslensku sauðfé í bland við villtar íslenskar jurtir. Pure Natura á í góðu samstarfi við Vilko á Blönduósi sem sér um að hylkja og pakka vörum fyrirtækisins.

Sérstök dómnefnd valdi fulltrúa Íslands til Embluverðlaunanna sem veitt verða í Kaupmannahöfn 24. ágúst næstkomandi. Á sama tíma fer þar fram ein stærsta matarhátíð Norðurlandanna, Copenhagen Cooking. Embla er heiti á norrænum matarverðlaunum sem öll bændasamtök á Norðurlöndum standa að í samvinnu við norrænu ráðherranefndina. Tilnefningar dómnefndar má sjá hér.

Tilnefnd til Euwinn verðlauna
Þetta er önnur tilnefningin sem Pure Natura fær á skömmum tíma því fyrir stuttu var Hildur Þóra Magnúsdóttir, stofnandi fyrirtækisins, tilnefnd til Euwinn verðlaunanna, sem eru frumkvöðlaverðlaun kvenna og verða þau afhent á Bari á Ítalíu í lok júní næstkomandi.

Pure Natura er sprotafyrirtæki sem stofnað var 2015 af Hildi Þóru Magnúsdóttur frumkvöðli, eftir að hugmynd hennar um þurrkun og nýtingu skjaldkirtla úr sláturdýrum vann til nýsköpunarverðlauna 2015. Síðan þá hefur fyrirtækið sótt sér styrki til þróunar á vörum sínum. Fyrirtækið var stofnað með það að leiðarljósi að framleiða bestu fáanlegu bætiefnin á markaðnum sem unnin eru úr innmat-og kirtlum sláturdýra í bland við íslenskar villijurtir. Fyrirtækið nýtir aukaafurðir sem falla til við slátrun lamba á haustin og byggir þannig sérstöðu sína á hreinleika íslenskra landbúnaðarvara. Vefsíða Pure Natura er www.purenatura.is.

Vilko keypti tækjabúnað til pökkunar
Vilko á Blönduósi hefur undanfarin þrjú ár séð um að hylkja og pakka vörum fyrir Íslensk Fjallagrös, Iceprotein og Pure Nature. Fyrirtækið hefur keypt fullkominn tækjabúnað til þess og er gert ráð fyrir einu og hálfu ársstöðugildi í þá vinnu. Að sögn Kára Kárasonar, framkvæmdastjóra Vilko, bindur fyrirtækið miklar vonir við vörur Pure Natura enda einstakar á heimsvísu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga