Húnabraut 33
Húnabraut 33
Fréttir | 17. maí 2017 - kl. 09:09
Viðburðaríkt ár hjá Ámundakinn

Aðalfundur Ámundakinnar ehf. fyrir árið 2016 var haldinn 24. apríl síðastliðinn og var hann vel sóttur. Afkoma félagsins var góð og umsvif óvenju mikil og vega þar þyngst miklar framkvæmdir bæði á Norðurlandsvegi 4 og Húnabraut 33. Bæði húsin eru nú að ganga í endurnýjun lífdaga og farin að gegna nýjum hlutverkum.

Rekstur félagsins skilaði um 26 m.kr. hagnaði, en hafa þarf í huga að félagið innleysti um 15 m.kr. söluhagnað af sölu fasteigna. Hluthöfum fjölgaði á árinu og er nú 77 talsins. Hlutafé á aðalfundi var rúmlega 190 m.kr. og eigið fé um 310 m.kr.

Félagið keypti Mjólkurstöðina, Húnabraut 33, í ársbyrjun og hefur Vilko flutt starfsemi sína þangað. Vilkohúsið var selt til Blönduósbæjar og húsnæði bæjarins á Efstubraut 2 keypt. Hefur það nú verið leigt Ístex hf. fyrir aukna starfsemi félagsins á Blönduósi.

Nýlega keypti Ámundakinn 53% hlut í Fasteignafélaginu Borg á Hvammstanga af dótturfélagi Landsbankans. Kaupverðið var greitt að mestu með nýjum hlutum í Ámundakinn ehf. og eru Hömlur fyrirtæki ehf. nú næststærsti hluthafinn í félaginu.

Ákveðið hefur verið að gera öðrum hluthöfum í Fasteignafélaginu Borg hliðstætt tilboð á næstu vikum.

Á aðalfundinum var kynnt viljayfirlýsing um að Ámundakinn ehf. muni byggja um 570 fermetra þjónustuhús vegna mjólkursöfnunar í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Húsið verður leigt Mjólkursamsölunni ehf. til langs tíma.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga