Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 14. júní 2017 - kl. 13:11
Skuldahlutfall Blönduósbæjar fer lækkandi

Samkvæmt nýsamþykktum ársreikningi Blönduósbæjar fyrir árið 2016 námu rekstrartekjur A og B hluta 982,7 milljónum króna sem er 86 milljónum hærri tekjur en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Tekjur samstæðunnar hækka um 141,7 milljónir milli ára sem er um 17% hækkun. Rekstrargjöld hækkuðu um 57 milljónir milli ára eða um 7,3%. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 90,4 milljónir króna. Skuldahlutfalli lækkar milli ára.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta að teknu tilliti til fjármagnsliða er jákvæð um 54 milljónir. Skuldir og skuldbindingar námu samtals 1.237,2 milljónum í árslok 2016 en voru 1.204,7 milljónir árið á undan. Tekin voru ný langtímalán að fjárhæð 70 milljónir á árinu. Afborganir langtímalána ársins námu tæpum 80 milljónum. Eigið fé samstæðunnar um síðustu áramót var 658,9 milljónir. Skuldahlutfall Blönduósbæjar lækkaði milli ára, úr 143,2% í lok árs 2015 í 125,9% í árslok 2016.

Síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins fór fram á sveitarstjórnarfundi í gær og var hann samþykktur samhljóða. Sveitarstjórn þakkaði starfsfólki sveitarfélagsins fyrir góð störf á liðnu ári.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga