Við hreinsunarstörf. Ljósm: vatnsdalsa.is
Við hreinsunarstörf. Ljósm: vatnsdalsa.is
Fréttir | 15. júní 2017 - kl. 09:30
Hreinsunarátak við Vatnsdalsá

Á aðalfundi Veiðifélags Vatnsdalsár kom fram sú hugmynd að landeigendur myndu líta til með ánni og fjarlægja rusl og aðra aðskotahluti, sem í eða með ánni kunnu að leynast. Stjórn veiðifélagsins hvatti landeigendur að nýta einhverja stund á á fyrstu dögum þessa mánaðar í það verkefni og voru undirtektir mjög góðar, að því er segir á vef Vatnsdalsár.

Síðastliðinn sunnudag voru allir velunnurum Vatnsdalsár hvattir til að mæta í grillveislu í Steinkoti og var grillmatur og drykkir voru í boði veiðifélagsins. Á Vatnsdalsárvefnum segir að margir hafi lagt leið sína í Steinkot þennan eftirmiðdag og átti fólk saman notalega stund. Áður höfðu margir farið með sínum árhluta og vitað er um einhverja sem ekki komust í að hreinsa rusl fyrir þennan dag en ætla að gera það á næstu dögum.

„Við leigutakarnir erum ákaflega ánægðir við þetta framtak. Við fórum með ánni og sáum hópa víða að störfum. Við munum að sjálfsögðu leggja okkar að mörkum og týna úr ánni plast og annað sem þar á ekki að vera um leið vatnið hefur minkað og við komumst á þá staði  sem þörf er. Það var mjög gaman að sjá hvað landeigendur voru samtaka í þessu og við fyllumst stolti að fá að vera með í samstilltu á takki heimamanna,“ segir á vef Vatnsdalsár.

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga