Fréttir | 15. júní 2017 - kl. 10:56
Ráðstefna um stöðu mála á Norðurlandi vestra

Um 100 manns sóttu ráðstefna um stöðu mála á Norðurlandi vestra sem haldin var á Sauðárkróki á mánudaginn að frumkvæði Kaupfélags Skagfirðinga í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu. Inntak ráðstefnunnar var víðfeðmt og voru haldnar framsögur um landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál, menningarmál, ferðaþjónustu, stóriðju og sveitarstjórnarmál. Sagt er frá þessu á Feyki.is.

Sigurður Árnason sérfræðingur Byggðastofnunar fór yfir íbúaþróun á svæðinu síðustu ár og vakti þar athygli á skýrum hnignunarmerkjum í íbúaþróun. Börnum og ungu fólki fækkar mest jafnframt því að meðalaldur á svæðinu hækkar. Aðeins meiri fækkun var í Húnavatnssýslunum en í Skagafirði.

Ráðstefnunni var skipt upp í tvo hluta, framsögur og svo vinnuhópa. Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst, stýrði ráðstefnunni ásamt því að skipuleggja hópastarfið. Ánægja var meðal gesta á framtakinu og var Valgarður Hilmarsson frá Blönduósi meðal gesta sem kvöddu sér hljóðs í lok ráðstefnunnar. Lýsti hann ánægju sinni með að nú væri notað orðið  „við“ sem heild fyrir Norðurland vestra en ekki „ég“ fyrir sitt svæði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga