Magnús, Valdimar og Gunnar afhenda fulltrúa dómsmálaráðherra listann.
Magnús, Valdimar og Gunnar afhenda fulltrúa dómsmálaráðherra listann.
Gunnar og fulltrúi dómsmálaráðherra.
Gunnar og fulltrúi dómsmálaráðherra.
Magnús, Valdimar og Gunnar.
Magnús, Valdimar og Gunnar.
Fréttir | 15. júní 2017 - kl. 13:44
Undirskriftarlistinn afhentur í dómsmálaráðuneytinu

Forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar, þar sem skorað er á Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, að afturkalla fyrirvaralausa uppsögn Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á Blönduósi úr starfi, voru mættir klukkan eitt í dag í dómsmálaráðuneytið til að afhenda dómsmálaráðherra 1191 undirskrift sem söfnuðust. Dómsmálaráðherra var ekki viðlátinn en fulltrúi hans tók á móti undirskriftarlistanum.

Gunnar Rúnar Kristjánsson, Valdimar Guðmannsson og Magnús Ólafsson komu akandi frá Blönduósi í morgun með undirskriftirnar og voru þeir sáttir með þann fjölda sem tók þátt í söfnuninni. Gunnar Rúnar afhenti fulltrúa ráðuneytisins undirskriftirnar og sagði honum hverju væri verið að mótmæla og frá áskoruninni til dómsmálaráðherrans. Fulltrúar helstu fjölmiðla landsins fylgdust með afhendingunni.  

Áskorunin til Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, hljóðar svona:

Varðar: Fyrirvaralausa brottvikningu yfirlögregluþjóns á Norðurlandi vestra

Við undirrituð mótmælum harðlega fyrirvaralausri brottvikningu Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á Blönduósi úr starfi.

Uppsögnin var gerð eftir 36 ára farsælt starf og aðeins fáum mánuðum áður en yfirlögregluþjóninn átti að fara á eftirlaun.

Valdníðsla af verstu gerð!

Í því sambandi má benda á að þegar lögregluumdæmin voru stækkuð árið 2007 var það samkomulag gert af þáverandi dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni, að lögreglumönnum yrði ekki sagt upp út af sameiningunni og ef yfirmenn yrðu of margir myndi það jafnast út þegar menn færu á eftirlaun.

Við undirrituð skorum á núverandi dómsmálaráðherra að afturkalla þessa aðför óreynds lögreglustjóra að lögreglumanni og að ríkið standi að fullu við fyrirheit fyrrverandi ráðherra dómsmála.

Fjöldi undirskrifta: 1.191

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga