Starri Heiðmarsson og Sigríður “lafsdóttir
Starri Heiðmarsson og Sigríður “lafsdóttir
Pistlar | 19. júní 2017 - kl. 11:16
Stökuspjall: Öræfakyrrð og fjallagróður
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Að halda vonglaður að heiman og snúa heim aftur með bjartar myndir af vinum sínum, frænkum eða frændum er góður kostur og alls þessa nutu fjölmargir niðjar Ártúnahjónanna, þeirra Sigríðar og Jóns Tryggvasonar sem komu saman á Bakkaflöt að morgni 17. júní og luku mótinu með sameiginlegum morgunverði daginn eftir. Sigríður tók þátt í mótinu en Jón lést fyrir nokkrum árum en hefði orðið 100 ára 28. mars s.l. Þann dag valdi Sigurdís Tryggvadóttir fyrir burtfarartónleika sína frá FÍH og þeir fóru fram glæsibrag í húsakynnum skólans við Rauðagerði. Þannig varð til annað ættarmót á þessum 100. afmælisdegi Jóns því ættingjar söfnuðust þangað norðan úr landi og allt austan af Rangárvöllum. Sigurdís var líka söngstjóri á ættarmótinu á Bakkaflöt, stefndi saman ungum tónlistarmönnum í fjölskyldunni, flestum blásurum og svo hljómaði Braggablús, leikinn og síðan sunginn. Með frænkum sínum Höllu Ósk og Sigríði Emblu myndaði Sigurdís tríó og mótsgestir hlýddu fagnandi á söng þeirra. Á ættarmótinu flutti Guðrún Þóranna sérkennari ágætan þátt af föður sínum og öðrum ættmennum, en hann valdist ungur til forystu meðal sveitunga sinna, bæði í hagsmunamálum sveitunganna og menningarmálum. Jón starfaði í karlakórnum frá unglingsárum og var söngstjóri kórsins í 35 ár. 

Elsta barnabarn Jóns, Starri fléttufræðingur kom til mótsins á gamla Ártúnabílnum sem heldur enn gamla númerinu H 322. Starri rifjaði líka upp myndir og minningar af afa sínum á kvöldvökunni. Margrét Jónsdóttir útbjó skrá fyrir mótið með nýlegum dægurlagatextum og manntali þar sem nær 60 afkomendur auk tengdamanna eru nefndir. Mörg lög ný og gömul voru kyrjuð um kvöldið þar á Bakkaflöt þar sem hjónin Klara Jónsdóttir og Sigurður Friðriksson hafa byggt stórt hús og mörg smærri til að taka móti gestum og var þáttur þeirra og barna þeirra, sem einnig eru gestgjafar á Bakkaflöt, stór í þessu vel heppnaði móti.

Nokkrar vísur eftir Jón hafa varðveist og ein þeirra á frekar óvenjulega sögu sem má gjarnan hefja í Ártúnaeldhúsinu þar sem Hjálmar Jónsson, ungi presturinn í sveitinni var gestkomandi og verið var að tala um vísur. Sr. Hjálmar fór með höfundarlausa vísu sem honum hafði nýlega áskotnast:

Norðurleiðum fer ei fram
með ferðahraðann:
Fimm tíma í Fornahvamm

en fjórir þaðan.

Þegar Jón heyrði vísuna fór hann að rifja upp ferðalag sitt með Norðurleiðarrútu sunnan úr Reykjavík en þá tók ferðin til Akureyrar 2 daga og var gist á Blönduósi. Sessunautur Jóns var Guðbrandur sýslumaður Ísberg og Jón gerði vísuna þeim Guðbrandi til skemmtunar og afþreyingar á þessu 9 tíma ferðalagi. Vísunni og tildrögum hennar gleymdi höfundur svo gjörsamlega, en kátínu vakti hún þarna með morgunkaffinu þegar vísan fann aftur höfund sinn eftir hálfa öld. Guðbrandur á heiðurinn af því að hafa varðveitt vísuna og miðlað.

Mótsskráin frá Bakkaflöt hófst á vísu eftir Jón Tryggvason.

Dagur á fjöllum ljúfur leið
ljómandi bjartur hlýr og góður.
Við áningastaði alla beið
öræfakyrrð og fjallagróður.

Jón í Ártúnum tók þátt í nokkrum hagyrðingamótum, s.s. því fyrsta sem haldið var á Skagaströnd 1989. Sjö árum síðan var mótið haldið á Núpi og þá kom Jón með rútunni vestur í Hrútafjörð og slóst í för með Sunnlendingum sem höfðu tryggt sér bústað á Gerðhömrum og áttu góða daga með Vestfirðingum og öðrum landsmönnum sem streymdu vestur að Núpi af þessu tilefni. Einn Sunnlendinganna, Gísli í Króki skrifaði í gestabókina:

Gerðishamra góða mynd
geymir lengi hjarta mitt
þar má líta kræfa kind
krummager og lúmskan pytt.

Hér við loksins fundum frið
flaut af hverju strái smjör.
Staðinn kringir klettarið
kyssir bára stein í vör.     

Eftir allt ferðaspjallið hér að ofan langar ritara að minna lesara á annan kost góðan sem getur líka verið upptaktur að nýrri för en það er að sitja heima með morgunútvarpið sitt og tölvuna sína, en í dag, 19. júní, er morgunútvarpið helgað baráttu kvenna og áföngum í því ferðalagi. – Og skemmtilegur var þátturinn af Önnu frá Moldnúpi, fjósakonunni sem fór út í heim.

Vísað er til: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=15322 og http://bragi.info/stjorn/index.php?brtyp=2&brid=5378

Gísli í Króki: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26697

Eldra stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?number=15&pid=13&date_from=201505190000&date_to=201706190952

Bakkaflöt ferðaþjónusta: http://bakkaflot.com/?lang=icelandic

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga