Fréttir | 11. júlí 2017 - kl. 23:04
Opið hús í Kvennaskólanum

Þekkingarsetrið á Blönduósi, Textílsetur Íslands og Vinir Kvennaskólans taka á móti gestum frá klukkan 13-17 föstudaginn 14. júlí í Kvennaskólanum á Blönduósi. Kynning á starfsemi Kvennaskólans, leiðsögn um Minjastofu Kvennaskólans og Vatnsdælu á Refli. Heitt verður á könnunni. Enginn aðgangseyrir.

Minjastofur Kvennaskólans og Vatnsdæla á Refli verður opin gestum og gangandi alla helgina milli klukkan 13-17. Enginn aðgangseyrir. Minjastofan var sett upp af Vinum Kvennaskólans. Tilgangurinn er að varðveita muni og sögu Kvennaskólans á Blönduósi, árin 1879-1978. Áhugavert er að skoða hið reisulega skólahús sem er eitt helsta kennileiti Blönduóss. Vatnsdæla á Refli verður 46 metra langur að verki loknu. Saumað er með hinum forna refilsaumi og fá þátttakendur kennslu í refilsaumi, kynningu á sögunni, verkefninu og fá nafn sitt ritað í bók.

Listamenn sem dvelja í listamiðstöðinni munu einnig sýna eitthvað af verkum sínum sem þeir hafa unnið að síðustu vikur í stúdíói á 2. hæð.

 

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga