Fréttir | 14. júlí 2017 - kl. 07:51
Húnavakan er hafin

Húnavakan er hafin og stendur hún yfir alla helgina. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir gesti og gangandi og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Í dag verður opið hús hjá fyrirtækjum á Blönduósi og ýmisleg spennandi Húnavökutilboð í gangi. Kvennaskólinn, Þekkingarsetrið, Textílsetrið og Vinir Kvennaskólans taka á móti gestum í dag og kynna starfsemina í skólahúsinu. Heitt verður á könnunni og enginn aðgangseyrir.

Eftirtalin fyrirtæki verða með opið hús og Húnavökutilboð:

  • Fisk á Disk við Norðurlandsveg: Húnavökutilboð á völdum vörum (kl.10-18)

  • Samkaup: Kleinuhringir á 50% afslætti, ýmis tilboð í gangi. (kl.10-19)

  • Hitt og þetta handverk/Vötnin Angling Service: Handverk ofl. Tilboð á sturtusápum og handáburði. (kl.10-12 og 13-21)

  • Húnabúð við Norðurlandsveg : 50% afsláttur af öllum leikföngum alla helgina (kl.11-18)

  • Rafmagnsverkstæðið Átak: Taka á móti gestum (kl.12-15)

  • Lífland: Taka á móti gestum. Húnavökutilboð á völdum vörum og heitt á könnunni. (kl.13-16)

  • SAH Afurðir: Taka á móti gestum í höfuðstöðvum fyrirtækisins. Grill, kynning á vörum og Húnavökutilboð á grillkjöti. (kl.13-17)

  • Tengill: Taka á móti gestum frá kl. 13:00-17:00. Hestaleigan Galsi teymir undir krakka frá 15-17 í boði Tengils.

Húnavakan sett formlega klukkan 18:45
Húnavakan verður formlega sett á bæjartorginu fyrir framan Félagsheimilið klukkan 18:45 í dag. Strax á eftir verða umhverfisverðlaun Blönduósbæjar veitt. Klukkan 19-21 verður haldið risa kótelettuvöld og skemmtun í Félagsheimilinu. Jóhannes Kristjánsson eftirherma fer með gamanmál og Frikki trúbador heldur uppi stuðinu. Þá fer fram frumflutningur á nýju lagi Frjálsa kótelettufélagsins í Austur-Húnavatnssýslu. Björn Þór og félagar hjá B&S sjá um eldamennskuna. Kóteletturnar koma að sjálfsögðu frá SAH Afurðum og í raspi frá Vilko.

Klukkan 20 í kvöld hefst knattspyrnuleikur á íþróttavellinum en þar etja kappi Kormákur/Hvöt og Kóngarnir. Frítt er á völlinn í boði Ísgel. Hljómsveitin Feðgarnir spila á Retro Hótel Blönduósi frá klukkan 20:30-22:30 og klukkan 23:00 verður haldinn stórdansleikur í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Á Móti Sól.

Spennandi laugardagur á Húnavöku
Á morgun, laugardag, verður hægt að fara í útsýnisflug hjá flugklúbbi Blönduóss ef veður leyfir. Opna Gámaþjónustumóti í golfi hefst klukkan 9:00 á Vatnahverfisvelli og Blönduhlaup hefst klukkan 11:00 við Félagsheimilið. Á sama tíma fara fram söngprufur í Míkróhúninum, söngkeppni fyrir börn, sem er orðinn fastur liður í dagskrá Húnavöku.

Klukkan 13:00 hefst opinn dagur hjá Skotfélaginu Markviss á skotsvæði félagsins og á sama tíma opnar bókamarkaður í Héraðsbókasafninu. Klukkan 14 hefst Fjör við Félagsheimilið. Þar verður markaðsstemning, lifandi tónlist, Gunni og Felix skemmta og sönghópurinn Fókus kemur fram. Sýning verður á völdum tækjum viðbragðsaðila í Austur-Húnavatnssýslu og verður m.a. nýr slökkvibíll frumsýndur en það er sagt með fyrirvara um að hann verði kominn. Míkróhúnninn fer fram, Mikki Mús og Mína mæta á svæðið, hestaleigan Galsi býður krökkum að fara á hestbak og Smaladrengirnir taka rúnt og sýna mótorhjólin sín.

Orgeltónleikar fara fram í Blönduóskirkju klukkan 16. Eyþór Franzson Wechner organisti leikur spennandi efnisskrá þar sem tónskáld á borð við Bach, Mozart og Mendelssohn koma við sögu.

Dagskrá laugardagsins endar svo með kvöldvöku í Fagrahvammi og stórdansleik eða Pallaballi í Félagsheimilinu. Kvöldvakan hefst klukkan 20:30 en þar munu Gunni og Felix skemmta, sigurvegarar í Míkróhúninum taka lagið ásamt Páli Óskari. Þá verða verðlaun afhent fyrir best skreytta húsið. Kveikt verður á varðeldi og Ingó Veðurguð mun leiða fjöldasöng. Stórdansleikur Páls Óskars hefst klukkan 23:00 í Félagheimilinu og stendur fram á nótt.

Prjónagangan er á sunnudaginn
Á sunnudaginn verður hægt að fara í sápurennibraut og hina árlegu prjónagöngu sem hefst við Hótel Blöndu klukkan 13:00 en gengið verður að Kvennaskólanum. Þá má geta þess að Heimilisiðnaðarsafnið verður opið alla helgina sem og Kvennaskólinn og hestaleigan Galsi.

Best er að allir kynni sér vel dagskrá Húnavöku 2017 sem finna má hér eða á Facebook síðu hátíðarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga