Fjör við Félagsheimilið
Fjör við Félagsheimilið
Opið hús í Kvennaskólanum
Opið hús í Kvennaskólanum
Nýr slökkvibíll
Nýr slökkvibíll
Kvöldvaka í Fagrahvammi
Kvöldvaka í Fagrahvammi
Páll “skar
Páll “skar
Felix og Gunni
Felix og Gunni
Varðeldur
Varðeldur
Fréttir | 16. júlí 2017 - kl. 09:00
Líf og fjör á Húnavöku

Fjöldi fólks er á Húnavöku á Blönduósi þessa helgina og hefur hátíðin farið vel fram í ágætist veðri. Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg að vanda og hafa allir getað fundið eitthvað við sitt hæfi. Mikið fjör og góð stemning var fyrir framan Félagsheimilið um miðjan dag í gær en þar fór fram fjölskylduskemmtun sem Gunni og Felix stýrðu með miklum myndarbrag.

Blönduósbær iðaði af lífi í allan gærdag. Golfmót á Vatnahverfisvelli, Blönduhlaup, útsýnisflug, opinn dagur hjá skofélaginu, bókamarkaður í Héraðsbókasafninu, tónleikar í kirkjunni, sýning í Heimilisiðnaðarsafninu, opið hús í Kvennaskólanum og markaðstorg við Félagsheimilið svo sitthvað sé nefnt. Nýr slökkvibíll Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu var frumsýndur en hann er af gerðinni MAN TGM 18.340 og er allur hinn glæsilegasti.

Hápunktur Húnavökunnar var kvöldvakan sem fram fór í Fagrahvammi. Þar skemmtu Gunni og Felix, sigurvegararnir í Míkróhúninum tóku lagið og verðlaun voru veitt fyrir best skreytta húsið. Ingó Veðurguð mætti á svæðið og leiddi fjöldasöng við logandi varðeld á bökkum Blöndu. Páll Óskar keyrði svo upp stuðið í Fagrahvammi og söng nokkur lög til að koma gestum í gírinn fyrir Pallaballið í Félagsheimilinu seinna um kvöldið. Regnboginn mætti einnig á svæðið.

Þá má geta þess að um 250 manns voru á risa kótelettukvöldi sem fram fór í Félagsheimilinu síðastliðið föstudagskvöld og var mikil ánægja með hvernig til tókst. Um 350 manns mætti svo á stórdansleik hljómsveitarinnar Á móti sól seinna um kvöldið.

Í dag klukkan 13 fer hin árlega prjónaganga fram á vegum Textílsetursins. Lagt verður af stað frá Hótel Blöndu og sem leið liggur útfyrir á og að Kvennaskólanum. Fjölmennum og höfum gaman af.

Meðfylgjandi er nokkrar myndir frá gædeginum en hægt er að sjá fleiri myndir á Facebook síðu Húnavöku.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga