Ljósm: vatnsdalsa.is
Ljósm: vatnsdalsa.is
Fréttir | 20. júlí 2017 - kl. 10:16
Laxveiðin gengur víðast hvar ágætlega

Laxveiðin í Blöndu gengur vel en alls hafa veiðst 745 laxar sem af er sumri samkvæmt vef Landssambands veiðifélaga og gaf vikuveiðin 231 laxa. Veiðin er þó talsvert minni nú ef hún er borin saman við sama tíma í fyrra en þá höfðu veiðst 1492 laxar. Meira veiðist í Laxá á Ásum nú samanborið við sama tíma í fyrra en alls hafa 345 laxar komið á land í sumar samanborið við 225 í fyrra. Þess ber að geta að í ár er veitt á fjórar stangir í ánni í stað tveggja í fyrra. Víðdalsá er komin í 315 laxa, Hrútafjarðará í 90 laxa og Svartá í 28 laxa.

Miðfjarðará hefur verið með mesta veiði af húnvetnsku ánum í sumar en ekki eru komnar nýjar veiðitölur inn á vef Landsambands veiðifélaga um veiði í ánni síðustu vikuna.

Beðið eftir smálaxinum
Ágætur gangur er í Vatnsdalsá en þar hafa 216 laxar veiðst í sumar. Á sama tíma í fyrra höfðu 338 laxar komið á land. Pétur Pétursson, leigutaki Vatnsdalsár, er þokkalega ánægður með veiðina sem af er, þó hann hefði auðvitað kosið að hún væri meiri. Hann segir að vel geti ræst úr sumrinu, sérstaklega ef smálaxinn láti sjá sig. Á þeim langa tíma sem Pétur hefur verið leigutaki í Vatnsdalsá hefur hann upplifað margt og segir hann að oft hafi veiðin glæðst um mánaðarmótin júlí/ágúst, ef það gerist ekki núna eru líkur á að veiðisumarið verði með lélegra móti í Vatnsdalnum. Of snemmt sé þó að segja til um það. Hann segir veiðimenn nú bíða eftir stórstreyminu 24. júlí í þeirri von að smálaxinn láti sjá sig í meira mæli. Aðspurður um breytingarnar sem gerðar voru á silungasvæðinu í sumar, að leyfa eingöngu fluguveiði, segir Pétur að þær hafi komið vel út og sé veiðin þar meiri en áður.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga