Veitt í Miðfjarðará. Ljósm: midfjardara.is
Veitt í Miðfjarðará. Ljósm: midfjardara.is
Fréttir | 03. ágúst 2017 - kl. 09:48
Blanda komin yfir 1000 laxa múrinn

Laxveiði í húnvetnskum ám gengur með ágætum þrátt fyrir sólríka daga og háan vatnshita. Mokveiði er í Miðfjarðará en síðustu sjö daga hafa veiðst 384 laxar eða að meðaltali rúmlega 5 laxar á stöng á dag. Alls hafa veiðst 1852 laxar í ánni sem af er sumri og er hún í öðru sæti fyrir aflahæstu laxveiðiár landsins. Blanda er komin í 1074 laxa og var vikuveiðin 161 laxar. Blanda er fimmta aflahæsta laxveiðiáin samkvæmt lista Landssambands veiðifélaga.

Góður gangur er í Laxá á Ásum sem er komin í 536 laxa. Víðidalsá er komin í 444 laxa og Vatnsdalsá í 369 laxa. Veiðst hafa 80 laxar í Hrútafjarðará og 52 í Svartá.

Veiðin í ár er heldur minni en á svipuðum tíma í fyrra. Þannig hafa veiðst um 480 færri laxar í Miðfjarðará og um 780 færri í Blöndu. Um 100 færri laxar hafa veiðst í Vatnsdalsá, um 160 færri í Hrútafjarðará og um 125 færri í Svartá. Aftur á móti hafa veiðst um 55 fleiri laxar í Laxá á Ásum miðað við svipaðan tíma í fyrra.

Á vef Vatnsdalsár segir frá því að vatnshitinn í Hnausastreng hafi farið upp í 21 gráðu á dögunum en allir sem til þekkja vita að það eru ekki hagstæðar aðstæður til veiða. Að venju hefur þessi gjöfuli veiðistaður staðið fyrir sínu en 46% af veiddum löxum í Vatnsdalsá hefur komið úr Hnausastreng sem af er sumri. Næsti besti veiðistaðurinn er Skriðuvað en þar hafa veiðst 33 laxar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga